Stöðfirðingurinn og fyrrverandi landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu, Ívar Ingimarsson, gagnrýnir Framsóknarflokkinn harðlega fyrir nýjasta útspil flokksins í flugvallarmálinu svokallaða, á Facebook síðu sinni í dag. "Framsóknarflokkurinn, eins og hann er nú, nærist á því að búa til óvini og æsing í samfélaginu. Flokkur í frjálsu falli sér hag í því að etja saman höfuðborg og landsbyggð og mér sýnist að það sé að takast," skrifar Ívar.
"Mjög uppbyggjandi og fín umræða"
Ívar gefur lítið fyrir taktík Framsóknarflokksins í flugvallarmálinu. "Flokkurinn er hvort eð er með lítinn stuðning í RVK (Reykjavík) en getur sótt einhvern styrk út á land með svona tali og umræðunni sem fylgir á eftir. Tvær fylkingar, sem nú tala niður til hvorar annarar vegna þessa mals, fá byr undir báða vængi, önnur talar um vitlaust sveitahyski og hin um 101 lattelepjandi Reykvíkinga sem engu skili til samfélagsins. Mjög uppbyggjandi og fín umræða sem án efa mun skila góðri niðurstöðu."
Framkomið þingmannafrumvarp Framsóknarflokksins um að færa skipulagsvald yfir flugvellinum frá Reykjavíkurborg til Alþingis er Ívari ekki að skapi. "Ég vil að flugvöllurinn verði í Reykjavík, en að leggja til að taka skipulagsvald af Reykjavík vegna þessa máls finnst mér döpur vinsældartillaga."
Stöðuuppfærsla Ívars Ingimarssonar á Facebook.