Já hefur keypt öll hlutabréf í Gallup. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu. KAupverðið er ekki tilgreint í henni en sagt að heildarvelta Já eftir kaupin verði um 1,7 milljarðar króna. Einungis tveir mánuðir eru síðan að starfsmenn á rannsóknarsviði Capacent hefðu keypt rannsóknarhluta fyrirtækisins og að það myndi þaðan af starfa undir merkjum Gallup. Markmið þeirra breytinga var sagt vera að skerpa áherslur Capacent í ráðgjöf og ráðningarþjónustu og Gallup í rannsóknum og upplýsingaþjónustu.
Í fréttatilkynningu frá Já og Gallup segir: "Nýverið gerði Já samning við eigendur Gallup um kaup á öllum hlutabréfum í fyrirtækinu. Já hefur undanfarin ár lagt áherslu á upplýsingaþjónustu sem auðveldar viðskipti og samskipti og Gallup hefur verið í forystu á sviði markaðs-, starfsmanna- og viðhorfsrannsókna. Með kaupum Já á Gallup hefur verið lagður grunnur að einu öflugasta upplýsingafyrirtæki landsins. Heildarvelta Já eftir kaupin verður um 1,7 milljarðar króna og fjöldi starfsmanna um eitt hundrað. Sameiginleg markmið Já og Gallup eru að bjóða upplýsingaþjónustu sem byggir á nýjustu tækni og traustum gögnum með viðskiptavini í forgrunni. Þjónusta Gallup verður áfram undir merkjum Gallup og þjónusta Já undir merkjum Já."
Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri já, segir að mikil sérfræðiþekking sé innan beggja félaga og að áfram verði lögð áhersla á upplýsingaþjónustu sem byggir á nýjustu tækni. "Bæði fyrirtækin eru upplýsingafyrirtæki þó þau starfi á ólíkum mörkuðum, kaupin auka fjölbreytni í rekstri Já og gera starfsumhverfið áhugaverðara og fjölbreyttara."
Einar Einarsson, framkvæmdastjóri Gallup, segir að salan sé stórt skref fram á við fyrir starfsemi og starfsmenn Gallup. "Umhverfi fyrirtækja er síbreytilegt og ekki síst ef litið er til tækni og þróunar sem átt hefur séð stað í upplýsingageiranum. Með kaupum Já er Gallup orðið hluti af sterku fyrirtæki með skýrar áherslur á rannsóknir og upplýsingar. Það gerir okkur kleift að þjónusta okkar viðskiptavini enn betur og áfram munum við kappkosta við að veita þjóðinni innsýn í mál líðandi stundar."