Árlega birtir embætti ríkisskattstjóra álagningarskýrslur yfir skattgreiðslur allra Íslendinga. Áhugasamir geta þar nálgast upplýsingar um hvað náunginn gaf upp sem tekjur á síðasta skattaári út frá því sem hann greiddi til samneyslunar.
Tilgangur þessa fyrirkomulags er að minnka skattsvik. Birtingin á að hafa forvarnargildi og tölur frá Noregi, þar sem gengið var enn lengra í opinberri birtingu á uppgefnum tekjum fyrir rúmum áratug, sýna að hún dregur úr skattsvikum.
Þetta fyrirkomulag hefur farið mjög fyrir brjóstið á ákveðnum hluta Sjálfstæðisflokksins og sérstaklega ungliðahreyfingu hans. Þar er sú skoðun ríkjandi að tekjur hvers og eins séu hans einkamál og að það brjóti í bága við friðhelgi einkalífsins að aðrir geti fengið að vita hvað hver og einn fær í laun.
Nú er svo komið að þingmaður flokksins, Sigríður Á. Andersen, ætlar sér að leggja fram frumvarp sem kemur í veg fyrir birtingu álagningarskránna á næsta þingi. Það hefur hún reyndar gert áður en í þetta skiptið segist hún hafa stuðning þingflokks Sjálfstæðisflokksins fyrir málinu.
Verði frumvarpið að lögum mun það þýða að mun minna gagnsæi verður varðandi það hvernig launagreiðslur skiptast milli landsmanna. Erfiðara verður að fylgjast með þróun launa á milli stétta og tekjuhópa og tækifæri almennings til að veita aðhald skerðast.
Í krafti frelsis hvers og eins til að græða eins mikið og hann lystir í friði á að kasta leyndarhjúp yfir skiptingu kökunnar.
Það er vert að velta því fyrir sér hvort þetta sé þróun sem við viljum.