Jarðskjálftaforritið Skelfir, sem íslenska fyrirtækið Reon Tech hefur haldið úti allt frá árinu 2011, hefur fengið upplyftingu. Skelfir er tengdur jarðskjálftavakt Veðurstofunnar og sýnir alla jarðskjálfta undanfarnar vikur. Eftir nýlega uppfærslu er meðal annars hægt að sjá síðustu þúsund jarðskjálfta myndrænt, velja tímabil og horfa á í sérstökum jarðskjálftaspilara.
Elvar Örn Þormar, framkvæmdastjóri og stofnandi Reon Tech, segir Skelfi lengi hafa verið skemmtilega hliðarafurð hjá fyrirtækinu. Fjölmargir heimsæki síðuna, sérstaklega þegar jarðhræringar eiga sér stað og þúsundir heimsækja síðuna þá daglega. Stefnt er að því að uppfæra forritið enn frekar og bæta meðal annars við ítarlegri tölfræðiþáttum.
Síðustu vikur hefur nokkur aukning orðið á jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaganum og nágrenni hans. Vísbendingar eru um óstöðugleika í jarðskorpunni sem geta verið undanfari jarðskjálfta. Almannavarnir sendi frá sér tilkynningu vegna þessa fyrir helgi og hvetja fólk til að kynna sér rétt viðbrögð við jarðskjálftum. Þessar jarðhræringar sjást vel í Skelfi.