Gísli Freyr Valdórsson, fyrrum aðstoðarmaður innanríkisráðherra, játaði í dag, 11. nóvember 2014, að hafa lekið gögnum um hælisleitandann Tony Omos til Fréttablaðsins og mbl.is í nóvember 2013. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra rak hann samstundis úr starfi eftir að hann játaði sök í málinu fyrir henni. Gísli Freyr hafði verið í tímabundnu leyfi eftir að hafa verið ákærður fyrir lekann.
Þann 11. nóvember 1994, fyrir nákvæmlega 20 árum, baðst Guðmundur Árni Stefánsson, þáverandi félagsmálaráðherra, lausnar úr starfi í kjölfar skýrslu Ríkisendurskoðunar um embættisverk hans. Á blaðamannafundi sagði Guðmundur Árni að umfjöllun fjölmiðla og annarra um sig og sín störf, sem hefði sjaldnast byggst á málavöxtum heldur fyrst og síðast á endurtekningum, hefði augljóslega skaðað sig og haft skaðvænleg áhrif á störf sín í félagsmálaráðuneytinu. Í frétt í Morgunblaðinu af blaðamannafundinum segir að Guðmundur Árni hafi sagt að ákvörðunin hafi verið tekin til að láta minni hagsmuni víkja fyrir meiri.
Guðmundur Árni Stefánsson.
Skýrsla ríkisendurskoðunar, sem varð til þess að Guðmundur Árni sagði af sér, fjallaði ítarlega um aðdraganda starfsloka Björns Önundarsonar tryggingayfirlæknis í nóvember 1993, en hann fékk greiddar þrjár milljónir króna vegna uppgjörs á áunnu námsleyfi gegn því að hann segði upp störfum.