„Þetta kemur mér ekkert á óvart,“ segir Sigurjón Kjartansson, tónlistarmaður, handritshöfundur og fjölmiðlamaður, um velgengni Jóhanns Jóhannssonar tónskálds, en hann hlaut á dögunum Golden Globe verðlaunin, fyrstur Íslendinga, fyrir tónlist sína í myndinni The Theory of Everything, og var síðan í dag tilnefndur til Óskarsverðlauna.
Sigurjón hefur unnið með Jóhanni við kvikmyndatengd verkefni, en vann þó meira með honum þegar þeir voru saman í hinni goðsagnakenndu þungarokkssveit HAM. „Jóhann hefur svolítið óhefðbundinn bakgrunn mætti segja. Enga hefðbundna tónlistarmenntun, en hann hefur alltaf verið mjög iðinn, duglegur og stórkostlega hæfileikaríkur tónlistarmaður,“ segir Sigurjón, en Jóhann spilaði á gítar og orgel þegar hann var í HAM, og kom að textagerð við lög Sigurjóns sömuleiðis. Sigurjón segist hafa kynnst honum í pönk-senunni. „Jóhann hefur alltaf verið hæglátur trukkur. Við vorum saman í New York á sínum tíma, og höfðum allir gagn og gaman af því. Þetta er virkilega skemmtilegt, og mikilvægt fyrir íslenska kvikmyndagerð, þessi árangur hjá Jóhanni, en þetta kemur mér ekki á á óvart,“ segir Sigurjón.
https://www.youtube.com/watch?v=PfxrSROkF_o
The Theory of Everything fjallar um ævi Stephen Hawking. Eddie Redmayne og Felicity Jones leika aðalhlutverk í myndinni. Myndin er einnig tilnefnd sem besta myndin á hátíðinni.
Aðrir sem eru tilnefndir í flokki Jóhanns eru Alexandre Desplat fyrir The Imitation Game og fyrir The Grand Budapest Hotel, Hans Zimmer fyrir Interstellar og Gary Yershon fyrir Mr. Turner. Hér má sjá allar tilnefningar til verðlaunanna.
Myndirnar Birdman og The Grand Budapest Hotel fengu flestar tilnefningar til verðlaunanna, níu tilnefningar hvor. Báðar eru tilnefndar sem besta myndin. Auk þessara þriggja kvikmynda eru myndirnar Boyhood, Whiplash, The Imitation Game, American Sniper og Selma tilnefndar.
Meryl Streep sló eigið met yfir flestar tilnefningar, en hún var í dag tilnefnd til Óskarsverðlauna í 19. skiptið.