Jóhann Jóhannsson er tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir tónlist sína í kvikmyndinni The Theory of Everything. Þetta var tilkynnt fyrir skömmu síðan, en rétt í þessu lauk beinni útsendingu þar sem tilkynnt var hverjir hljóta tilnefningar til verðlaunanna virtu, sem verða veitt í Los Angeles í næsta mánuði.
Jóhann hlaut Golden Globe-verðlaunin í síðustu viku fyrir tónlistina í myndinni, sem fjallar um ævi Stephen Hawking. Eddie Redmayne og Felicity Jones leika aðalhlutverk í myndinni. Myndin er einnig tilnefnd sem besta myndin á hátíðinni.
Aðrir sem eru tilnefndir í flokki Jóhanns eru Alexandre Desplat fyrir The Imitation Game og fyrir The Grand Budapest Hotel, Hans Zimmer fyrir Interstellar og Gary Yershon fyrir Mr. Turner. Hér má sjá allar tilnefningar til verðlaunanna.
Myndirnar Birdman og The Grand Budapest Hotel fengu flestar tilnefningar til verðlaunanna, níu tilnefningar hvor. Báðar eru tilnefndar sem besta myndin. Auk þessara þriggja kvikmynda eru myndirnar Boyhood, Whiplash, The Imitation Game, American Sniper og Selma tilnefndar.
Meryl Streep sló eigið met yfir flestar tilnefningar, en hún var í dag tilnefnd til Óskarsverðlauna í 19. skiptið.