Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrum forsætisráðherra, segir að viðhorf Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, til styrkja sjávarútvegsfyrirtækja til Sjálfstæðisflokksins vera „ótrúleg siðblinda“. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu Jóhönnu á Facebook í kvöld þar sem hún tengir við frétt RÚV um málið. Bjarni segir ekkert vera að styrkjum fyrirtækjanna til flokksins.
Í frétt RÚV kom fram að fyrirtæki í sjávarútvegi hafi styrkt stjórnmálaflokkana um 16 milljóna króna fyrir síðustu Alþingiskosningar. Níu af hverjum tíu krónum sem þau veittu í styrki fóru til Sjálfstæðiflokksins og Framsóknarflokksins.
Auk þess styrktu sjávarútvegsfyrirtæki frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins um rúmlega sjö milljónir króna í prófkjörum fyrir síðustu Alþingiskosningar.Frambjóðendur annarra flokka fengu engan stuðning frá fyrirtækjunum.
Í fréttum RÚV var Bjarni spurður hvort þetta væri eðlilegt fyrirkomulag. Þar sagði Bjarni: „Það sem er eðlilegt er það að stjórnmálaflokkar geta tekið við framlögum frá atvinnulífinu upp að 400.000 krónum. Það hefur enginn stjórnmálaflokkur fengið meira en 400.000 krónur frá hverju og einu atvinnufyrirtæki í landinu. Þetta eru mjög strangar reglur, enda sést það ágætlega á fjármálum stjórnmálaflokkanna, að þeir eru ekkert alltof vel settir. Sjálfstæðisflokkurinn er með ágætis dreifingu í þeim stuðningi sem hann hefur fengið. Og ég sé ekkert að því að hann njóti stuðnings frá sjávarútvegsfyrirtækjum eins og öðrum“.
Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins vildi ekki tjá sig um málið þegar RÚV leitaðist eftir því.