"Eftir ritstjórnarfund í Kastljósinu í morgun þar sem farið var yfir þáttinn í gær og línurnar dregnar fyrir kvöldið, gekk ég út úr útvarpshúsinu sáttur og með bros á vör – atvinnulaus." Svona hefst ný færsla á bloggsíðu fréttamannsins Jóhannesar Kr. Kristjánssonar sem hann setti inn í dag.
Í Kastljós-þættinum í gær var fjallað um sölumenn sem reyna að selja veiku fólki ýmsan varning sem ekki er viðurkenndur og stenst oft enga vísindalega skoðun, en er seldur með þeim orðum að þau geti stuðlað að bata fólks. Þátturinn vakti mikla athygli.
Þeir sem voru til umfjöllunar í þættinum reyndu að fá lögbann á sýningu hans, en án árangurs.
Jóhannes Kr. segist hafa verið "ráðinn tímabundið í Kastljósið og sú ráðning rann út um mánaðarmótin janúar/febrúar. Ég á eftir að klára tvær fréttir fyrir Kastljós á næstu vikum – og kannski fleiri – hver veit!"
Næstu daga ætlar hann að nota til að fara yfir gögn í ýmsum málum sem hann hefur fengið í hendurnar síðustu mánuði og vinna úr þeim.