Erindi þar sem starfsmaður Eplis, umboðsaðili Apple á Íslandi, óskaði eftir aðstoð forsætisráðherra við að koma á fundi við ráðamenn tæknirisans til að vekja áhuga þeirra á að reisa gagnaver á Íslandi, var sent Jóhannesi Þór Skúlasyni og Ásmundi Einari Daðasyni, aðstoðarmönnum forsætisráðherra, og Ágústi Geir Ágústssyni skrifstofustjóra í ráðuneytinu.
Erindið var sent 24. mars á síðasta ári, og var aldrei svarað, en ráðuneytið hyggst kanna ástæður þess að því var ekki svarað. Í erindinu sem Epli sendi forsætisráðuneytinu, og Kjarninn hefur undir höndum, segir meðal annars:
„Um nokkurt skeið höfum við verið að benda forsvarsmönnum Apple á kosti þess að skoða Ísland sem vænlegan kost fyrir gagnaver en einn helsti ókosturinn hefur alltaf verið skortur á sæstreng til N-Ameríku. Nú er orðið ljóst að sú hindrun verður ekki til staðar mikið lengur og höfum við því komist lengra með þessar viðræður.
Okkur langar að leita til forsætisráðherra eftir aðstoð við að koma á fundi við ráðamenn Apple í Bandaríkjunum til að vekja áhuga þeirra á að reisa gagnaver á Íslandi. Við erum í sambandi við fólk í höfuðstöðvum Apple sem er reiðubúið til að koma á fundi ef hæstvirtum forsætisráðherra hugnast að heimsækja höfuðstöðvarnar í Cupertino í Kaliforníu.
Það er augljóst að stóru tæknirisarnir munu koma til með að reisa gagnaver á Íslandi og þar með auka það forskot sem Ísland hefur nú þegar öðlast með framúrskarandi mannauð og þekkingu á þessu sviði.
Hugsanlega getur þessi fundur átt samleið með öðrum erindum forsætisráðherra til Bandaríkjanna. Einnig væri upplagt að taka til umræðu á slíkum fundi mikilvægi þjóðtungunnar í tækniveröldinni fyrir smáþjóðir á borð við Ísland, sérstöðu landsins sem tilraunamarkaðs sem og gríðarlega grósku í hugbúnaðarþróun.“
Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu frá því í gær segir:
„Forsætisráðherra sinnir árlega fjölda erinda frá innlendum og erlendum aðilum til að liðka fyrir fjárfestingum og atvinnuuppbyggingu hér á landi. Ekki hefur hins vegar tíðkast að forsætisráðherra ferðist sérstaklega milli landa til að koma á fundum milli einstakra fyrirtækja og því taldi ráðuneytið að ekki væri hægt að verða við ósk starfsmanns Skakkaturns ehf.
Ráðuneytið harmar að tölvupóstinum frá Skakkaturni ehf. hafi ekki verið svarað og kannar nú ástæður þess.“