Áætluð eyðsla hvers Íslendings til innkaup sem rekja má til jólahalds verður að meðaltali um 45 þúsund krónur, áætluð heildarvelta í smásöluverslun í nóvember og desember verður tæplega 72 milljarðar króna án virðisaukaskatts og áætlað er að jólaverslunin aukist um fjögur prósent á milli ára þegar búið er að leiðrétta fyrir verðhækkunum. Þetta kemur fram í samantekt Rannsóknarseturs verslunarinnar í jólaverslun árið 2014.
Í samantektinni er einnig að finna niðurstöður sérskipaðrar valnefndar á „Jólagjöfinni í ár“. Niðurstaðan er „Nytjalist“. Í röksemdum segir að það sé tímanna tákn að neytendur hafi bæði hagkvæmni og gæði að leiðarljósi við innkaup. Þá segir að krafa sé um það að „hönnun sameini notagildi og fagurfræði enda sé það alkunna að kaffi bragðist betur ef það er borið fram í fallegum bolla.“
„Jólagjöfin í ár" árið 2013 var „Lífstílsbók".