Körfuboltakappinn Jón Arnór Stefánsson var í kvöld valinn íþróttamaður ársins 2014 af Samtökum íþróttafréttamanna. Verðlaunaafhendingin fór fram í kvöld og var í beinni útsendingu á RÚV, en þetta var í 59. sinn sem samtökin útnefna íþróttamann ársins.
Jón Arnór var ekki viðstaddur verðlaunaafhendinguna í kvöld, en hann er á Spáni þar sem hann leikur með körfuboltaliðinu Unicaja Málaga í spænsku úrvalsdeildinni. Hann átti stóran þátt í því að tryggja þátttökurétt íslenska karlalandsliðsins í körfubolta á lokakeppni EM í fyrsta skipti, en mótið fer fram síðar á þessu ári.
Þetta var í níunda skiptið að Jón Arnór var á meðal þeirra tíu íþróttamanna sem komu til álita til að hreppa verðlaunin. Jón Arnór er bróðir Ólafs Stefánssonar handboltamanns, en þeir eru fyrstu bræðurnir til að vera útnefndir íþróttamenn ársins. Þá hefur aðeins einn körfuboltamaður verið valinn íþróttamaður ársins á undan Jóni Arnóri, en það var fyrir 48 árum þegar Kolbeinn Pálsson hlaut titilinn.
Þá var íslenska karlalandsliðið í körfubolta útnefnt lið ársins, Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Íslandsmeistara Stjörnunnar í fótbolta karla hlaut titilinn þjálfari ársins. Þá voru þeir Ásgeir Sigurvinsson fótboltamaður og Pétur Guðmundsson körfuboltamaður teknir inn í frægðarhöll ÍSÍ við hátíðlega athöfn í kvöld.