Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík, verður alhliða stjórnandi hjá 365, og mun starfa þvert á öll svið fyrirtækisins svipað og fjármála- eða mannauðsstjórar gera. Þetta segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365, í samtali við Kjarnann.
Eins og greint var frá í morgun hefur Jón verið ráðinn ritstjóri innlendrar dagskrár hjá fjölmiðlafyrirtækinu.
Starf Jóns er nýtt í fyrirtækinu. Sævar segir að þannig muni starf Jóns ekki aðeins felast í innlendri dagskrárgerð fyrir ljósvakamiðla fyrirtækisins. Hann mun líka koma að ýmissi hugmyndavinnu fyrir alla miðla, þar á meðal í fréttatengdu efni, og líka fyrir markaðsdeild fyrirtækisins, að sögn Sævars. Ráðning hans hefur ekki í för með sér breytingar á starfssviði annarra stjórnenda fyrirtækisins.
„Hann er að fara að styrkja okkur með þessum frábæra skapandi og frjóa huga sem hann hefur,“ segir Sævar, og bætir því við að hugmyndaauðgi Jóns muni koma sér vel víða í fyrirtækinu. Jón mætti til vinnu nú klukkan 10 og var Sævar á leið að taka á móti honum þegar Kjarninn ræddi við hann.