Lögmaðurinn Eiríkur S. Svavarsson, sem er einn eigenda fyrirtækisins Matorku sem nýverið gerði fjárfestingasamning við íslenska ríkið, kom fyrir atvinnuveganefnd þann 30. október síðastliðinn fyrir hönd Lögmannafélags Íslands til að ræða frumvarp um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi. Hann lét nefndina ekki vita af mögulegum hagsmunaárekstri.
Tveimur dögum áður hafði laganefnd Lögmannafélags Íslands sent atvinnuveganefnd umsögn vegna frumvarpsins. Eiríkur situr í laganefndinni en er ekki skrifaður fyrir umsögninni.
Mjög sérstakt, segir formaður nefndarinnar
Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, segist ekki minnast þess að Eiríkur hafi tekið fram að fyrirtæki sem að hluta til væri í hans eigu væri í viðræðum við atvinnuvegaráðuneytið um ívilnunarsamning á sama tíma og hann kom fyrir nefndina. Aðspurður um hvort honum finnist að um hagsmunaárekstur hafi verið að ræða svara Jón því játandi. „Mér finnst þetta vera mjög sérstakt. Menn eiga að hafa vit á því að halda sér til hliðar þegar svona hagsmunir eru í húfi.“
Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis.
Aðspurður um hvort honum finnist að um hagsmunaárekstur hafi verið að ræða svara Jón því játandi. „Mér finnst þetta vera mjög sérstakt. Menn eiga að hafa vit á því að halda sér til hliðar þegar svona hagsmunir eru í húfi.“
Jón segir nefndina ekki hafa vitað neitt um samning ráðuneytisins við Matorku fyrr en fyrir skemmstu. Hann hefur frestað afgreiðslu á frumvarpi um ívilnanir til nýfjárfestinga á meðan að ýmsir þættir málsins eru til skoðunar.
Ekki náðist í Eirík Svavarsson við vinnslu fréttarinnar.
Fær mikla afslætti
Matorka og ríkisstjórn Íslands undirrituðu fjárfestingasamning um ívilnanir til næstu tíu ára þann 27. febrúar síðastliðinn.
Viðskiptablaðið greindi fyrst innihaldi samningsins auk þess sem ítarlega var fjallað um það í Kastljósi kvöldsins. Í umfjöllun miðlanna kom fram að samkvæmt samningnum fær félagið fær afslátt af fjölda skatta og gjalda. Tekjuskattsprósentan verður 15 prósent, á meðan önnur fyrirtæki greiða 20 prósenta tekjuskatt. Þá fær félagið helmingsafslátt af tryggingagjaldinu og lögbundnu hámarki fasteignagjalda, undanþágur vegna greiðslu aðflutningsgjalda, hagstæðari fyrningareglur, ívilnanir vegna virðisaukaskatts af innflutningi og sérstakan þjálfunarstyrk fyrir starfsmenn. Allar ívilnanirnar eiga sér fordæmi í fjárfestingasamningum ríkisins vegna stóriðju, gagnaver, kísilver og önnur fyrirtæki.
Matorka og ríkisstjórn Íslands undirrituðu fjárfestingasamning um ívilnanir til næstu tíu ára þann 27. febrúar síðastliðinn.
Hlutfall ívilnanna af heildarfjárfestingu félagsins, sem hyggur á samkeppni við fjölda íslenskra fyrirtækja sem fyrir eru í bleikjueldi, hefur vakið athygli. Samkvæmt Viðskiptablaðinu nemur það að lágmarki 35 prósent en allt að 60 prósentum. Andvirði ríkisstyrksins hleypur á 430 milljónum króna á meðan heildarfjárfesting Matorku vegna bleikjueldisins við Grindavík er áætluð um 1.200 milljónir króna. Að meðtöldum áðurnefndum þjálfunarstyrk, þar sem kostnaður getur numið allt að 295 milljónum króna, en þá slagar hlutfall ívilnanna af fjárfestingunni upp í 60 prósent.
Á meðal stærstu eigenda
helstu eigendur Matorku eru þeir Einar Sveinsson og Eiríkur Svavarsson. Einar er frændi Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og fyrrverandi viðskiptafélagi hans á árunum fyrir hrun. Þá er Einar hluthafi í Thorsil, sem hlaut nýverið fjárfestingasamning við ríkið vegna kísilvers á Reykjanesi og þá á hann hlut í félaginu sem keypti Borgun af Landsbananum nýverið, og Kjarninn sagði frá fyrstur fjölmiðla.
Eiríkur er hæstaréttarlögmaður, situr í laganefnd Lögmannafélags Íslands og átti sæti í haftahópi stjórnvalda þar til nýlega, en þangað var hann ráðinn af Bjarna Benediktssyni. Eiríkur var áberandi í samtökunum InDefence og hefur meðal annars gegnt trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Garðabæ. Eiginkona hans er einn stofnenda Matorku.
Viðbót klukkan 14:25 18. mars 2015:
Eiríkur S. Svavarsson, lögmaður og einn eiganda Matorku, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna fréttar Kjarnans í gærkvöldi þar sem fjallað var um að hann hafi komið fyrir atvinnuveganefnd þann 30. október síðastliðinn fyrir hönd Lögmannafélags Íslands til að ræða frumvarp um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi. Eiríkur segir í yfirlýsingu að hann hafi ekki átt hagsmuna að gæta á fundinum né gagnvart efnisatriðum frumvarpsins. Með fréttaflutningi af málinu sé "að ástæðulausu vegið að heilindum mínum og starfsheiðri." Hægt er að lesa yfirlýsingu Eiríks í heild sinni hér.
Kjarninn stendur að fullu leyti við frétt sína á málinu. Ekki er bent á neinar rangfærslur í fréttinni í yfirlýsingu Eiríks.