Jón Steinsson, dósent í hagfræði við Columbia-háskóla, segist ganga það langt að kalla það spillingu, að stjórnvöld skuli gera 700 milljóna ívilnanasamning við fiskeldi Matorku, sem er í kjördæmi Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og í eigu náins frænda Bjarna Benediktssonar, efnahags- og fjármálaráðherra. „Á hvaða öld lifum við? Iðnaðarráðherra gerir 700 m.kr "ívilnunarsamning" við fyrirtæki í sínu kjördæmi sem er í eigu náins frænda fjármálaráðherra. ... Og þetta er ekki í fyrsta skipti sem frændur fjármálaráherra virðast fá sérstaklega góða meðhöndlun hjá ríkinu. Landsbankinn seldi um daginn öðrum frænda fjármálaráðherra stóran hlut í Borgun í gegnum lokað ferli. ... Ég ætla að ganga svo langt að kalla þetta spillingu,“ segir í Jón á Facebook-síðu sinni.
Jón Steinsson.
Landsamband fiskeldisstöðva gagnrýnir ívilnunarsamning upp á 700 milljónir króna sem iðnaðarráðherra hefur gert við Matorku, að því er fram kemur á vefnum Vísi. Þetta skekki samkeppnisstöðu í bleikjueldi á Íslandi þar sem önnur fyrirtæki hafi ekki notið stuðnings.
Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra gerði ívilnunarsamning við Matorku hinn 20. febrúar síðast liðinn sem metinn er á 700 milljónir króna. Fyrirtækið hyggur á stórfellt bleikjueldi á Reykjanesi, en það er skráð í Sviss, að því er fram kemur í frétt Vísis.
Matorka mun fá töluverðar ívilnanir svo sem eins og 50 prósent lækkun á tryggingagjaldi, en það nemur ríflega átta prósentum ofan á laun þegar allt er eðlilegt.