Fyrirtækið Kaffitár ehf., hefur krafist þess af Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu sæki gögn um tilboð og fylgiskjöl þeirra frá fjórum fyrirtækjum sem kepptu við Kaffitár um leigurými í Flugstöð Leifs Eiríkssonar til Isavia. Fyrirtækið vill að afhending gagnanna verði krafist með aðför. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Aðalheiði Héðinsdóttur, forstjóra Kaffitárs.
Isavia annast rekstur og uppbyggingu allra flugvalla á Íslandi og stýrir flugumferð í íslenska flugstjórnarsvæðinu. Fyrirtækið er að öllu leyti í eigu eins aðila, íslenska ríkisins.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál komst að þeirri niðurstöðu 15. maí síðastliðinn að Isavia ætti að afhenda gögnin. Auk þess var Isavia gert að afhenda einkunnir allra fjögurra fyrirtækjanna sem tóku þátt í samkeppninni um leigurýmið í flugstöðinni. Isavia fór upphaflega fram á að nefndin endurskoðaði niðurstöðu sína en þeirri kröfu var hafnað 31. júlí síðastliðinn. Isavia tilkynnti í kjölfarið að fyrirtækið ætli ekki að una úrskurðinum og ætlar þess í stað að höfða ógildingarmál fyrir héraðsdómi. Í tilkynningu frá Isavia vegna þessa sagði: „Ástæðan er að úrskurðurinn kveður á um að gögn með viðkvæmum fjárhagslegum upplýsingum skuli látin af hendi til Kaffitárs og því í ósamræmi við úrskurð nefndarinnar í máli Gleraugnamiðstöðvarinnar."
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi Isavia skylt að afhenda gögn málsins vegna þess að fyrirtækin sem tóku þátt í samkeppninni fengu engan rökstuðning fyrir einkunnagjöfinni sem réð því hvort þau fengu leigupláss í flugstöðinni.
Kaffitár vísar í tilkynningu sinni í 23. grein upplýsingalaga þar sem segir að úrskurður samkvæmt upplýsingalögum um ,,aðgang að gögnum eða afrit af þeim er aðfararhæfur, nema réttaráhrifum hans hafi verið frestað.” Úrskurðarnefnd hafi því þegar hafnað frestun réttaráhrifa. Engin lagaheimild sé því til að höfða ógildingarmál fyrir dómstólum við þessar aðstæður. "Hugmyndir Isavia um málshöfðun fyrir dómstólum á þessu stigi málsins sæta því nokkurri furðu," segir að lokum í tilkynningunni.