Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju og Starfsgreinasambandsins, á von á löngum og köldum vetri í kjaramálunum. Kjarasamningar launafólks á almennum vinnumarkaði verða lausir í lok febrúar, og á formaður Starfsgreinasambandsins von á erfiðum kjaraviðræðum og spáir verkföllum í mars og apríl. Þetta kemur fram í viðtali við Björn Snæbjörnsson í Morgunblaðinu í dag.
Þá segir Björn að verkalýðshreyfingin sé afar ósátt við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar og segir að stjórnvöld hafi ekki staðið við fyrirheit og gerða samninga til að mynda varðandi greiðslur til VIRK-endurhæfingarsjóðsins. Þá hafi stytting atvinnuleysisbótatímans sömuleiðis hleypt illu blóði í verkaýðshreyfinguna. Þessi atriði og fleiri komi ekki til með að auðvelda komandi kjaraviðræður.
Í samtali við Morgunblaðið kveðst Björn bjartsýnn á að verkalýðshreyfingin ljúki við að móta kröfugerð sína til fulls fljótlega á nýju ári. Þá á hann von á að Starfsgreinasambandið ljúki við kröfugerð sína fyrir 20. janúar næstkomandi. Hann vonar að skrifað verði undir nýja kjarasamninga fyrir 1. mars, en telur að það verði á brattann að sækja í þeim efnum. Björn segir þungt hljóð í verkalýðshreyfingunni og að mars og apríl geti hæglega orðið mánuðir verkfallsaðgerða.