Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, vilji áfengi í verslanir af því það leiði til þess að fleiri muni kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Ef áfengissala sé gefin frjáls þá drekki landsmenn meira. Bjarni viti að drykkja geti svift menn ráði og rænu, og því sé líklegra að menn kjósi Sjálfstæðisflokkinn. Þetta segir Kári í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
„Hann veit hins vegar að ef því verður komið í venjulegar verslanir drekka landsmenn meira. Hann veit líka að áfengisdrykkja getur svift menn ráði, rænu og annarri eðlilegri starfsemi heilans og því sé líklegra að menn kjósi Sjálfstæðisflokkinn þegar þeir eru drukknir en allsgáðir. Eftir að hlusta á málflutning hans í þessari ræðu er auðvelt að vera honum sammála. Eina vandamálið sem ég sé við þessa atkvæðasmölun formannsins er að kjörstaðir eru almannafæri.“
Grein Kára, sem ber yfirskriftina „Hvað meinar maðurinn með frelsi?“. Kári vísar í stefnuræðu Bjarna frá setningu Alþingis, þ.e. þann hluta ræðu Bjarna sem fjallaði um að áfengissala skyldi vera gefin frjáls.
„En því ber ekki að neita að orðið frelsi er áferðarfallegt og þrútið af göfugum tilfinningum sem höfða til okkar allra. Það er hins vegar gjarnan ágreiningur um það hvar frelsið endar og þykjusta og óheftur bjánaskapur byrja,“ skrifar Kári. Hann rifjar upp ummæli Bjarna úr ræðunni:
„„Má ég nefna það hér hvort við treystum fólkinu í landinu til að sækja áfengi í venjulegar verslanir eða ekki? Í mínum huga er það augljóst mál. Það eru röng skilaboð frá þinginu að treysta ekki fólkinu til þess að kaupa áfengi í venjulegum verslunum, að það þurfi opinbera starfsmenn til þess að afhenda slíka vöru yfir búðarborðið. Það eru röng skilaboð,“ sagði Bjarni.
Kári segir það liggja fyrir að með auknu aðgengi áfengis þá aukist neyslan. Spurningin hvort selja eigi áfengi í verslunum snúist því um hvort við viljum að fólkið í landinu neyti meira eða minna áfengis. „Alkóhólismi er einn af alvarlegustu og algengustu sjúkdómum í okkar samfélagi og ekki á það bætandi. Það er því lítill krókur að rölta í sérverslun til þess að forðast þá keldu sem aukin áfengisneysla landsmanna væri.
Síðan er það allt önnur spurning og gömul hvernig Alþingi treysti fólkinu í landinu til þess að umgangast þessa vöru sem formaðurinn vill nú flytja inn í venjulegar verslanir. Það ætti þó að vera honum ljóst að þegar kemur að því að para saman áfengi og fólkið í landinu hefur afstaða Alþingis aldrei markast af trausti og það hefur til dæmis með lögum skert til muna frelsi þeirra sem eru búnir að neyta þess í einhverju magni og eru undir þeim áhrifum sem eftir er sóst með neyslunni. Þeim er bannað að aka bifreið, fljúga flugvél, stjórna bátum og vera á almannafæri. Það er engin önnur vara sem er löglega seld í landinu sem er með þeim ósköpum gerð að löggjafinn hafi séð ástæðu til þess að skipta sér sérstaklega af gjörðum þeirra sem hafa neytt hennar,“ skrifar Kári.
Hann segist í litlum vafa um að formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, viti þetta allt saman og skilji. „Ég er í litlum vafa um að formaðurinn veit þetta allt saman og skilur en vonar að ef hann komi áfengi í venjulegar verslanir leiði það til þess að fleiri muni kjósa Sjálfstæðisflokkinn sem þessa dagana er illa rúinn fylgi. Ekki getur það verið vegna þess að hann haldi að hugmyndin um áfengi í venjulegar verslanir sé vinsæl vegna þess að skoðanakannanir benda til þess að meiri hluti landsmanna vilji að áfengið haldi sig heima hjá sér. Hann veit hins vegar að ef því verður komið í venjulegar verslanir drekka landsmenn meira. Hann veit líka að áfengisdrykkja getur svift menn ráði, rænu og annarri eðlilegri starfsemi heilans og því sé líklegra að menn kjósi Sjálfstæðisflokkinn þegar þeir eru drukknir en allsgáðir. Eftir að hlusta á málflutning hans í þessari ræðu er auðvelt að vera honum sammála. Eina vandamálið sem ég sé við þessa atkvæðasmölun formannsins er að kjörstaðir eru almannafæri.“