Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hvetur Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra til að setja áætlanir sínar um að byggja hús Íslenskra fræða til hliðar og flytja það fjármagn sem hann áætlar í framkvæmdina "yfir í kaup á tæki til að þess að hlúa að lösnu fólki. Þetta kemur fram í grein eftir Kára sem birtist í Morgunblaðinu í dag og ber nafnið "Konur og börn í bátanna fyrst".
Áhugi sem deilist með Karli Bretaprins
Sigmundur Davíð lagði tillögu fyrir ríkisstjórn um síðustu mánaðarmót sem í fólst að klára byggingu húss Íslenskra fræða, byggja við Alþingi og ráðast í uppbyggingu á Þingvöllum í tilefni af hundrað ára afmælis fullveldis Íslendinga þann 1. desember 2018.
Kári segir þessi áform Sigmundar Davíðs vera vegna áhuga hans á byggingum og skipulagsmálum, sem hann deili með Karli Bretaprins. "Áhugans vegna virðist honum annaðhvort hafa gleymst að 1. desember 1918 hlutum við Íslendingar töluvert sjálfstæði frá Dönum eða honum hefur yfirsést að við erum að glata því aftur að hluta. Og hvernig í ósköpunum hefur það gerst? Það hefur gerst með því að jáeindaskannar hafa orðið nauðsynleg tæki í nútíma læknisfræði og Danir eiga slíkan en við ekki. Á síðasta ári sendum við 100 sjúklinga til Kaupmannahafnar í jáeindaskanna og í ár verða þeir að öllum líkindum 200. Við getum ekki lengur sinnt sjúklingum okkar án þess að leita á náðir Dana. Það er með öllu óásættanlegt og í engu samræmi við þær væntingar sem Íslendingar höfðu í byrjun desember árið 1918."
Frekar tæki fyrir lasið fólk en hús
Að mati Kára væri það mun nær andanum sem sé að baki fyrsta desember að halda upp á hundrað ára afmæli fullveldisins með því að flytja jáeindarskanna til landsins en að byggja hús. Með því yrði endurheimt sjálfstæði frá Dönum sem Íslendingar vilja hafa og forfeður okkar börðust fyrir. "Ein hliðin á þessu er sú að það er mikilvægara fyrir íslenskt mál að halda lífinu í þeim sem tala það en að reisa hús yfir þá sem rannsaka það. Ég dreg að vísu til baka þá staðhæfingu hér að ofan að þetta sé dæmi um spaugilegar afleiðingar þess að menn láti reynsluheim sinn og áhuga trufla mat á augnablikinu og veiti þar með fordæmi um það hversu auðvelt það sé að skipta um skoðun þegar við á.
Nýja skoðunin mín er að þetta sé dæmi um dapurlegar afleiðingar þess að forsætisráðherra hefur áhuga á byggingum og skipulagsmálum. Ég er handviss um að meirihluti landsmanna er mér sammála um þetta og því bendi ég forsætisráðherra á þann möguleika að fylgja fordæmi mínu og skipta um skoðun sem sagan hefur kennt okkur að hann geti auðveldlega og flytja það fé sem hann er í þann veginn að setja í hús vestur á Melum yfir í kaup á tæki til þess að hlúa að lösnu fólki. Það væri í miklu betra samræmi við þá forgangsröðun sem fólkið í landinu aðhyllist og ég veit að forsætisráðherra hefur oftast fylgt í lífi sínu og starfi og gengur undir nafninu: konur og börn í bátana fyrst. Ginnungagapið vestur á Melum má alltaf nýta til þess að jarðsetja nöldur og vondar hugmyndir sem þessa dagana berast úr hlöðnu steinhúsi við Austurvöll," segir Kári Stefánsson.