Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, vill að þingmenn sem gagnrýndu málflutning frambjóðenda Framsóknarflokksins í síðustu kosningabaráttu afsökunar vegna þeirrar niðurstöðu sem nú hefur náðst í losun fjármagnshafta. Hann kvaddi sér hljóðs undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag og ræddi þetta.
„Það var ekki lítið hlegið að frambjóðendum Framsóknarflokksins þegar þeir minntust á kylfu og gulrót í síðustu kosningabaráttu. Pólitískir andstæðingar höfðu aldrei heyrt aðra eins firru, aldrei heyrt annað eins bull og það að hægt væri að nálgast kröfuhafa á þessum nótum. Annað hefur komið á daginn,“ sagði Karl, en hann vitnaði í umfjöllun um Lee Buchheit, ráðgjafa stjórnvalda í haftamálum, í Morgunblaðinu í dag. Þar er haft eftir heimildamanni blaðsins að Buchheit hafi nálgast málin með „aðferðafræði kylfu og gulrótar, þ.e. aðferðafræði hörku eða umbunar,“ eins og segir í Morgunblaðinu.
„Það væri kannski smá manndómur í því ef þetta sama fólk sem situr hér á þingi myndi biðjast afsökunar á þessum ummælum og öðrum í kosningabaráttunni. Framsóknarflokkurinn hefur nefnilega staðið við stóru orðin,“ sagði Karl í ræðu sinni á Alþingi í dag.