Regluleg meðallaun karla voru 17,4 prósentum hærri en meðallaun kvenna árið 2014, en meiri munur var á heildarlaunum, eða 21,5 prósent. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu aðgerðarhóps stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins sem skipaður var árið 2012 til að vinna að launajafnrétti kynjanna.
Í skýrslunni kemur fram að lítill munur sé í dag á atvinnuþátttöku karla og kvenna, einkum í yngri aldurhópnum. Þá vinna konur í meira mæli hlutastörf en karlar, en 66 prósent kvenna voru í fullu starfi á síðasta ári, samanborið við 87 prósent karla. Starfsval karla og kvenna er sem fyrr ólíkt, sem kemur fram í skiptingu eftir atvinnugreinum og starfsstéttum. Um 45 prósent kvenna starfa hja hinu opinbera og meira en fjórir af hverjum fimm starfsmönnum í heilbrigðis- og félagsþjónustu eru konur.
Óleiðréttur munur á reglulegum launum minnkaði um þrjú prósentustig frá árinu 2008 til 2013, einkum á fyrri hluta tímabilsins. Ef heildarlaun eru skoðuðu á tímabilinu hefur dregið enn meira úr óleiðréttum launamun, eða um 6,5 prósentustig. Þá er launamunurinn meiri á almenna vinnumarkaðnum en þeim opinbera.
Þá eru hlutfallslega fleiri konur en karlar með háskólapróf og þá sérstaklega í yngri aldurshópnum. Fleiri karlar eru með framhaldsskólapróf sem hæstu prófgráðu en konur. Þá eykst óleiðréttur launamunur með aldri. Í aldurshópnum 18 til 27 ára á almennum markaði voru karlar með fimm prósent hærri laun en konur, en munurinn var orðinn 23 prósent í aldurshópnum 58 til 67 ára.