Marie er frá Chartres í Frakklandi, er með BS í líffræði og MS í haf og strandsvæðastjórnun frá Háskólasetri Vestfjarða. Guðni er úr Reykjavík, tók BS í efnafræði við HÍ og fyrsta árið í læknisfræði. Þau eru núna að safna á Karolina Fund fyrir framleiðslu á heilsusamlegu salti sem meðal annars lækkar blóðþrýsting, ólíkt venjulegu salti sem hækkar blóðþrýsting.
Þið eruð að vinna að áhugaverðu verkefni um saltvinnslu, hvernig lýsir það sér?
„Verkefnið er endurvakning forn-íslenskrar aðferðar til saltframleiðslu. Aðferðin er að brenna þara og nota öskuna sem salt. Askan er sölt vegna þess að hún samanstendur aðallega af steinefnum. Við viljum koma upp verksmiðju á sama stað og Landnáma segir að hafi verið framleitt samskonar salt; Svefneyjum í Breiðafirði. Til þess vantar okkur núna herslumuninn, óskum við því eftir aðstoð í gegn um karolinafund.com og bjóðum í staðinn salt úr fyrstu framleiðslu, boli og fleira (t.d. sex 35g pakkningar fyrir 3750kr heimsent).“
Hvað kom til að þið fóruð að vinna að þessu?
„Við hittumst við fuglarannsóknir á Látrabjargi í júní 2013 og giftumst ári síðar. Við höfum bæði brennandi áhuga á skynsamlegu líferni og mataræði, sérstaklega eftir að við komumst að því að við ættum von á barni.
Fjölskyldan sem stendur að saltframleiðslunni.
Hugmyndin kviknaði þannig að Guðni vissi um vandamál tengd joðskorti frá því hann skrifaði ritgerð um joð í menntaskóla. Hann hafði líka heyrt af því að á víkingaöld hefðu Íslendingar framleitt salt á þennan hátt. Við sendum svo hugmyndina inn í samkeppni Matís, „þetta er eitthvað annað“ 2013 og höfnuðum í 4.-11. sæti. Við áttuðum okkur á því að það væru vandamál við nútímamataræði sem þessi einfalda hugmynd gæti leyst. Með því að kanna nýjustu rannsóknir á næringu, auk eldri rannsókna, sáum við enn betur hversu vel verkefnið gæti nýst fólki.“
Bragðast saltið öðruvísi en hefðbundið salt?
„Bragðið kemur skemmtilega á óvart. Flestum finnst það bragðbetra eða svipað venjulegu salti þegar það er smakkað beint, enda er ekki þarabragð af því. Það er létt og litríkt í þeim skilningi að það eykur bragð matarins á fjölbreyttari, ekki eins skarpan hátt og venjulegt salt. Fer mjög vel með fiski, kjöti og grænmeti.“
Að hvaða leyti er það betra fyrir kroppinn?
„Það hefur allt aðra efnasamsetningu en venjulegt salt vegna þess að það er búið til úr hreinum þara. Natríummagnið er 8,8 prósent miðað við 39 prósent í venjulegu salti. Okkar salt er 20,6 prósent kalíum en annað salt um 0,3 prósent. Kosturinn við að kalíum sé uppistaðan frekar en natríum er að natríum hækkar blóðþrýsting en kalíum lækkar hann. Um 90 prósent landsmanna nota of mikið natríum en 95 prósent fá ekki nóg kalíum. Það er líka verulegt magn af öðrum steinefnum sem marga skortir, til dæmis kalsíum, járni, magnesíum og joð.
„Viking Silver - the Super Salt.“
Joðið hefur alltaf verið verðmætasta innihaldsefni þara, enda er hann besta uppspretta joðs í náttúrinni. Joðskortur er eitt alvarlegasta næringarvandamál heimsins í dag. Tveir milljarðar manna þjást af alvarlegum joðskorti, þar á meðal 70% ungra kvenna á Íslandi, sem getur því miður haft alvarleg áhrif á ófædd börn og börn á brjósti. Japanir nota allra þjóða mest af þara og þar er tíðni brjóstakrabbameins með minnsta móti og ýmsar rannsóknir hafa sýnt að aukin joðneysla eða þaraneysla getur snúið við forstigi brjóstakrabbameins.“
Hægt er að skoða verkefnið og styrkja hér.