A & E Sounds er samvinnuverkefni Þórðar Grímssonar og Kolbeins Soffíusonar þar sem unnið er með myndinnsetningar og tónlist. Við tókum þá félaga tali og fengum að fræðast meira um verkefnið.
Getið þið sagt okkur frá verkefninu? Út á hvað gengur það og hvaðan kemur það?
"Hugmyndin að A & E Sounds varð til þegar Þórður Grímsson stundaði nám við Weissensee listaháskólann í Berlín vorið 2014. Á þeim tíma samdi hann fjölda demo-a og gaf þau út á Soundcloud. Ég [Kolbeinn Soffíuson] stundaði nám við Stúdíó Sýrland í hljóðtækni árið 2014 og þegar ég heyrði demo’in frá Þórði taldi ég tilvalið að nýta efnið í lokaverkefni mitt í skólanum. Ég hafði samband við Þórð sem var einnig til í þetta samstarf og við völdum 10 lög af demo’unum til þess að taka upp og fullvinna.
Þegar Þórður sneri heim frá Berlín síðla árs 2014 fórum við þá á fullt í upptökur og eftirvinnslu í kjölfarið. Við lögðum mikla vinnu í plötuna og vorum gríðarlega ánægðir með útkomuna. Við tókum upp með fjölda af hæfileikaríkum tónlistarmönnun; organistanum Steinari Loga, píanóleikaranum Þórönnu Björnsdóttur, trommu- og slagverksleikarnum Orra Einarssyni, söngkonunni Jessica Meyer og karlakór Kaffibarsins Bartónar. Við tókum upp efni í Hallgrímskirkju, í Stúdíó Sýrlandi og á Skúlagötu í Reykjavík þar sem við Þórður höfum deilt stúdíói í um nokkura ára skeið."
Stefnan sett á 500 eintök af vínyl plötum
Núna í vor útskrifast Þórður úr grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands og mun fyrir lokasýningu LHÍ hanna allt myndrænt útlit plötunnar. Stefnan er sett á að pressa 500 eintök af vínyl plötum með hágæða prentefni. Til þess að fjármagna vínyl pressun og prentun á myndefni þá höfum við hafið söfnun á Karolina Fund og þar get þeir sem styrkja söfnunina pantað sér eintak af plötunni í forsölu.
Hvað hafið þið spilað saman lengi og hvert stefnið þið með músíkina?
"Við Þórður höfum verið góðir vinir frá unga aldri og höfum grúskað í ýmsu saman allt frá körfubolta þegar við vorum yngri til tónlistarinnar í dag. Við deilum svipuðum smekk á tónlist og fagurfræði og höfum áður spilað saman músík í hljómsveitinni Two Step Horror. Við erum nýbyrjaðir að æfa lögin af A & E Sounds plötunni með live bandi og stefnan er sett á að koma fram á tónleikum og kynna tónlistina enn frekar. Þeir sem skipa hljómsveitina eru Þórður Grímson á gítar og söng, Kolbeinn Soffíuson á gítar, Baldvin Dungal (Gunman & the Holy Ghost) á bassa og Orri Einarsson (Dead Skeletons og The Way Down) á trommur.
Ásamt þeim, verða nokkrir valinkunnir sessionistar með í samfloti. Við höfum nú þegar gefið út tvö lög á bandcamp síðu A & E Sounds og þar geta áhugasamir náð frítt í lögin Sunday Driver (fyrsti singull LP plötunnar) og Strawberry Letter 23 (Shugie Otis ábreiða). Einnig höfum við í samstarfi við ástralska myndlistarmanninn Jonathan McCabe gefið út myndband við lagið Sunday Driver, en Jonathan blandar saman stærðfræðiformúlum Alan Turing við tölvuvinnslu og útkoman er þetta lífræna samspil lita á hreyfingu:
http://youtu.be/tidyeJdXkgk
En það er ekki setið auðum höndum, tónlistin heldur áfram og við erum alltaf að taka upp nýtt efni og setjum það alla jafna út í formi demoa á soundcloud og/eða youtube. Núna um síðustu helgi tókum við t.d. upp lag – fyrir Karolina fund – og var hugmyndin að sýna dæmi í hljóði og mynd hvernig sköpunarferlið og framleiðslan fer fram. Lagið heitir Phasers og má sjá hérna:
http://youtu.be/Y2t2fIHbFMM
Hægt er að skoða verkefnið nánar og leggja því lið hér.