Ísland mætir Kasakstan í dag í undankeppni EM, en leikurinn er afar mikilvægur fyrir Ísland, sem er í öðru sæti riðilsins á eftir Tékkum, eftir fjórar umferðir. Með sigri getur Ísland styrkt stöðu sína í toppbaráttunni og aukið líkurnar á því að komast í fyrsta skipti í úrslitakeppni stórmóts.
Kasakar eru erfiðir heim að sækja, þó illa hafi gengið hjá þeim til þessa í riðlinum. Þeir eru með eitt stig eftir fjórar leiki, héldu jöfnu gegn Lettum 0-0 en hafa tapað öðrum leikjum í riðlinum.
Kjarninn tók saman tíu atriði sem tengjast leiknum með einum eða öðrum hætti, fróðleik um Kasakstan og margt sem er einkennandi fyrir landið.
1. Veðurspáin fyrir leikinn er ekki sérstaklega góð. Gert er ráð fyrir ellefu stiga frosti á Astana Arena, þjóðarleikvangi Kasaka í höfuðborginni. Eiður Smári Guðjohnsen snýr aftur í lið Íslands eftir að hafa verið utan hópsins, frá því hann brast í grát fyrir framan alþjóð, eftir að Ísland tapaði fyrir Króatíu í umspilsleik fyrir HM í Brasilíu.
https://www.youtube.com/watch?v=DrSUWAtpLs0
2. Kasakstan er ekki í Evrópu í reynd, en tíu prósent landsins telst þó innan marka Evrópu. Annars telst þetta stóra land að mestu til Asíu og er oftast staðsett í Mið-Asíu, þegar um legu landsins er fjallað.
3. Kasakstan öðlaðist sjálfstæði árið 1991 en var áður hluti af Sovétríkjunum. Landið fékk sjálfstæði síðast af þjóðarbrotunum sem urðu til við fall Sovétríkjanna.
4. Landið hefur framþróast hratt efnahagslega á undanförnum árum, en olíu- og jarðgasauðlindir eru í landinu sem knýja efnahaginn að miklu leyti. Landsframleiðsla á mann nemur rúmlega 24 þúsund Bandaríkjadölum, og er landið í sæti númer 50 á þann mælikvarða í heiminum, samkvæmt lista Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
5. Íbúar landsins eru 17,9 milljónir, eða 54 sinnum fleiri en Íslendingar, sem eru tæplega 330 þúsund. Þrátt fyrir það á Ísland mun fleiri atvinnumenn í bestu deildum Evrópu en Kasakar.
6. Kasakstan er níunda stærsta land í heimi. Samanlögð stærð meginlands Evrópu er minni en Kasakstan. Ef Spánn, Frakkland, Þýskaland og Ítalía væru lögð saman, þá myndi það ekki duga til að ná Kasakstan.
7. Kasakstan er í 138. sæti á styrkleikalista FIFA. Ísland er í 35. sæti, en fór í 28. sæti í október í fyrra, og var þá efst á listanum af Norðurlandaþjóðum.
8. Kasakstan á sér djúpar sögulegar rætur í bókmenntum, og þá einkum í gegnum miklar orustufrásagnir frá því Gengis Kan fór fyrir stærsta her heimsins í kringum 1130, her Mongólíuveldisins, í gríðarlegum bardögum. Þeir fóru margir hverjir fram í Kasakstan.
9. Kvikmyndin Borat: Cultural Learnings of America for Make Benefit Glorious Nation of Kazakhstan, sló í gegn árið 2006. Óhætt er að segja að hún dragi upp vafasama mynd af landinu. Þó um grínmynd sé að ræða, þá urðu vinsældir myndarinnar það miklar að stjórnvöld fundu sig knúin til þess að koma skilaboðum á framfæri við umheiminn um að Kasakastan væri ekki svona eins og lýst væri í myndinni.
https://www.youtube.com/watch?v=y7R1E4cjZA8
10. Höfuðborgin Astana þykir glæsileg borg, með öllum nútímalegum þægindum. Henni hefur verið líkt við Dubai sökum þess hve mikið er af glæsilegum nýlegum byggingum í henni. Hjartað í efnahagslífi Kasakstan slær í borginni, þar sem olíuiðnaður er áberandi.
https://www.youtube.com/watch?v=gGc9PZCI4jU