Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hefur óskað eftir því að utanríkismálanefnd ræði TISA-viðræðurnar. Í pósti sem hún sendi til nefndarmanna vegna þessa segir að hún óski "eftir því að utanríkismálanefnd fái utanríkisráðuneytið á fund um TISA-viðræðurnar og vinnulag ráðuneytisis í kringum þær í ljósi þess að heilbrigðisráðherra vissi hvorki um tillögur tengdar viðskiptum með heilbrigðisþjónustu né afstöðu Íslands í því máli".
Kjarninn greindi frá því fyrr í gær tillaga hafi verið lögð fram í TISA-viðræðulotu sem fram fór í september um að auka samkeppni um heilbrigðisþjónustu á milli landa með því að markaðsvæða þjónustuna. Samkvæmt tillögunni eru miklir ónýttir möguleikar til að alþjóðavæða heilbrigðisþjónustu, aðallega vegna þess að heilbrigðisþjónusta er að mestu fjármögnuð og veitt af ríkjum eða velferðarstofnunum. Það er því nánast ekkert aðdráttarafl fyrir erlenda samkeppnisaðila til að keppa um að veita hana vegna þess hversu lítið markaðsvætt umhverfi hennar er.
Það var samningsnefnd Tyrklands sem lagði fram tillöguna en hún var rædd í áttundu viðræðulotu TISA-viðræðnanna sem fór fram í Genf í september síðastliðnum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýjum gögnum sem Kjarninn birtir í dag í samstarfi við Associated Whistleblowing Press (AWP) og fjölmiðla víðsvegar um heiminn. Gögnunum var lekið til AWP sem hefur unnið að birtingu þeirra undanfarið. Hægt er að nálgast gögnin í heild sinni hér.
Ísland telur að tillagan eigi ekki heima í samningnum
Ísland er eitt þeirra 50 landa sem er aðili að TISA-viðræðunum, sem eiga að auka frelsi í þjónustuviðskiptum milli landa.
Utanríkisráðuneytið sendi frá sér áréttingu vegna fréttar Kjarnans um málið í gær. Þar kom fram að Ísland telur ekki að tillagan eigi heima í TISA-samningnum. Ísland, og fjölmörg önnur Evrópuríki,tóku ekki þátt í viðræðum um tillöguna þegar hún var lögð fram í september síðastliðnum. Í tölvupósti frá Urði Gunnarsdóttur, upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins, segir að Ísland telji ekki að sá viðauki sem tillagan lagði til ætti heima í samningnum.
Segja tillöguna auka ójöfnuð
Samkvæmt tillögunni sem rædd var í september á að auka frelsi sjúklinga til að ferðast til annarra aðildarlanda samningsins til að sækja sér heilbrigðisþjónustu, kjósi þeir svo. Þannig myndist markaður með slíka.
Odile Frank, læknir sem starfar hjá Alþjóðasamtökum starfsfólks í almannaþjónustu (PSI), hefur rýnt í tillöguna og segir að tillagan myndi auka kostnað við veitingu heilbrigðisþjónustu í þróunarlöndum og minnka gæði hennar í þróuðum löndum Evrópu, Norður-Ameríku, Ástralíu og víðar.
PSI segir að tillagan gangi út frá því að heilbrigðisþjónusta sé vara eins og hver önnur sem hægt sé að kaupa og selja á markaði. Samtökin segja að slíkt sjónarmið líti fram hjá almannahag og muni auka ójöfnuð verulega.
Samkvæmt prófessor Jane Kelsey, breskum sérfræðingi í þjónustuviðskiptum, myndi sú lausn sem lögð er til í tillögunni gagnast auðugari einstaklingum og einkafyrirtækjum innan heilbrigðisgeirans. Peningar myndu hins vegar sogast úr heilbrigðiskerfum þjóða, en lág fjárfesting í þeim er einmitt ein þeirra ástæða sem nefnd er sem rök fyrir því að bjóða upp á aukna aflandsþjónustu innan heilbrigðisgeirans. Þannig stækki lausnin eitt þeirra vandamála sem hún á að leysa.