Slitastjórn Kaupþings vill ekki upplýsa um hvort hún greiði fyrir málsvörn Jóhannesar Rúnars Jóhannessonar, formanns slitastjórnarinnar, í máli Vincent Tchenguiz gegn honum fyrir breskum dómstólum. „Kaupþing hefur ekki í hyggju að veita fjölmiðlum upplýsingar um það hvernig Jóhannes Rúnar fjármagnar vörn sína í téðu máli,“ segir í skriflegu svari frá Kaupþingi við fyrirspurn Kjarnans.
Kaupsýslumaðurinn Vincent Tchenguiz stefndi slitastjórn Kaupþings, endurskoðendafyrirtækinu Grant Thornton, tveimur starfsmönnum Grant Thornton og Jóhannesi Rúnari í desember síðastliðnum og krefst 2,2 milljarða punda í skaðabætur, eða um 450 milljarða króna. Tchenguiz, sem var stór viðskiptavinur Kaupþings fyrir hrun, telur þessa aðila hafa lagt á ráðin, haft frumkvæði að og tekið þátt í rannsókn bresku efnahagsbrotadeildarinnar Special Fraud Office (SFO), á honum og fyrirtækjum í hans eigu. Þetta hafi leitt til þess að hann var handtekinn á heimili sínu í mars 2011 og leitað var á skrifstofu hans og í fyrirtækjum í hans eigu.
Um síðustu mánaðarmót hafnaði breskur dómstóll kröfum Jóhannesar Rúnars Jóhannessonar og slitastjórnarinnar um að þarlendir dómstólar hafi ekki lögsögu í málinu. Rúnar vildi að málið yrði tekið fyrir á Íslandi þar sem einungis íslenskir dómstólar hefðu lögsögu yfir uppgjöri slitabús Kaupþings, en af því verður ekki. Dómstóllinn telur málið varða atburði sem áttu sér stað á breskri grundu og því verði þeir teknir fyrir af bresku réttarkerfi. Hins vegar er viðurkennt að breskir dómstólar hafi ekki lögsögu yfir slitabúi Kaupþings enda geri íslensk gjaldþrotalög ráð fyrir því að íslenskir dómstólar hafi einir lögsögu yfir þeim.