Björn Þorvaldsson saksóknari segir Sigurð Einarsson, fyrrverandi stjórnarformann Kaupþings, hafa játað lögbrot þegar hann tjáði sig í dómsal um ákæruefnin í markaðsmisnotkunarmálinu, þar sem hann er ákærður ásamt átta öðrum fyrrverandi stjórnendum og starfsmönnum Kaupþings. Þetta kemur fram í frétt mbl.is af málaferlunum, en ritstjórn mbl.is hefur setið öll réttarhöldin og flutt fréttir af þeim daglega. Málflutningur hefur farið fram í dag, þar sem Björn hefur flutt mál sitt, en síðan taka verjendur ákærðu við einn af öðrum.
Í frétt mbl.is af þessu, segir að saksóknari hafi vísað til þess að í svörum sínum hefði Sigurður sagt að Kaupþing hefði „tryggt að fólk gæti alltaf selt bréf sín í Kaupþingi og með því hefði verðmæti fyrirtækisins verið aukið, en aukinn seljanleiki þýði jafnan hærra verð bréfa“ eins og segir í fréttinni.
Saksóknari sagðist sammála þessum orðum Sigurðar, samkvæmt endursögn mbl.is. „Það auki vitaskuld verðmæti bankans að bjóða alltaf upp á að kaupa bréf þegar söluþrýstingur eykst. Sagði saksóknari slíka hækkun þó veita falska eftirspurn og ekki gefa raunverulega verðmat á bréfunum. Sagði hann að með þessu hafi því Sigurður verið að játa brot sitt,“ segir í fréttinni.
Saksóknari sagði Sigurð og Hreiðar Má Sigurðsson, fyrrverandi forstjóra bankans, hafa verið „fullkomlega upplýsta um kaup deildar eigin viðskipta í bréfum í Kaupþingi, en meðal annars hafi skýrslur verið sendar reglulega til þeirra“ eins og segir í fréttirnni.
Ákæran í málinu skiptist upp í tvær hliðar, kaup- og söluhlið. Á kauphliðinni er bankinn sagður hafa keypt hlutabréf í sjálfum sér í miklum mæli og kemur fram í ákærunni að með því hafi verði bankans verið haldið uppi, eða þess gætt að það lækkaði ekki of hratt. Á söluhliðinni er ákært fyrir að bankinn hafi losað sig við sömu bréf með því að lána félögum með lítið eða neikvætt eigið fé fyrir kaupum á hlutabréfum í bankanum, þar sem eina veðið voru hlutabréfin sjálf.
Ákærðu í málinu eru auk Sigurðar, Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, Ingólfur Helgason, fyrrverandi forstjóri Kaupþings á Íslandi, Bjarki Diego, fyrrverandi framkvæmdastjóri útlána, Einar Pálmi Sigmundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri eigin viðskipta Kaupþings, Pétur Freyr Guðmarsson, fyrrverandi starfsmaður eigin viðskipta, Birnir Sær Björnsson, fyrrverandi starfsmaður eigin viðskipta, og Björk Þórarinsdóttir, sem sæti átti í lánanefnd Kaupþings.
Sigurður, Hreiðar og Magnús, taka nú út refsingu sína sem þeir fengu í Al Thani málinu svokallaða, en þeir voru dæmdir fjögurra til fimm og hálfs árs fangelsi fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun.