Fimm fyrrum stjórnendur Kaupþings voru dæmdir í héraðsdómi til að greiða dótturfélagi Seðlabanka Íslands, sem er á ábyrgð ríkissjóðs og skattgreiðenda, rúmlega einn milljarð króna vegna skuldar sem var tilkomin vegna jarðakaupa félagsins Hvítsstaðir ehf., sem þeir voru í ábyrgð fyrir. Dómurinn féll 1. apríl í Héraðsdómi Reykjavíkur, en mbl.is greindi frá málinu í dag.
Stjórnendurnir fyrrverandi eru Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri, Ingólfur Helgason, fyrrverandi forstjóri bankans á Íslandi, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg og Steingrímur P. Kárason, fyrrverandi yfirmaður áhættustýringar bankans. Hreiðar Már, Sigurður, og Magnús hafa þegar verið dæmdir í fjögurra til fimm og hálfs árs fangelsi í Hæstarétti fyrir stórfelld lögbrot í Al Thani málinu svokallaða, og eru Hreiðar Már og Sigurður þegar byrjaðir að afplána sinn dóm.
Voru í persónulegri ábyrgð
Félagið Hvítsstaðir gerði í október 2005 lánasamning við SPRON vegna kaupa á félaginu Langárfossi ehf. Gengust þáverandi eigendur Hvítsstaða í sjálfskuldarábyrgð fyrir greiðslu skuldarinnar og nam ábyrgð hvers þeirra einum fimmta hluta skuldarinnar, til viðbótar við vexti, dráttarvexti og kostnað.
Upphafleg lánsfjárhæð var 570 milljónir japanskra jena og greiddi félagið vexti af láninu á gjalddaga árin 2006 til 2008 samkvæmt skilmálum lánasamningsins. Árið 2008 var gerður nýr samningur þar sem eldra lánið var að fullu greitt upp með nýju láni og var höfuðstóll nýja lánsins 729 milljónir íslenskra krónur.
Eftir að SPRON var tekið yfir fluttist skuldin til Dróma og þaðan til Hildu ehf., en félagið er dótturfélag Seðlabanka Íslands.
Þurfa fyrrverandi stjórnendur Kaupþings að greiða 923 milljónir auk dráttarvaxta frá 20. desember 2010 og er staðfestur veðréttur stefnanda á fasteigninni að Langárfossi í Borgarbyggð, að því er segir í dómnum.