Sérstakur saksóknari birti þremur mönnum: Lárusi Welding, Jóhannesi Baldurssyni og Þorvaldi Lúðvík Sigurjónssyni, ákæru í síðustu viku í hinu svokallaða Stím-máli. Hinir tveir fyrrnefndu eru ákærðir fyrir umboðssvik en Þorvaldur Lúðvík fyrir hlutdeild í slíkum. Kjarninn hefur ákæruna undir höndum. Hana má lesa í heild sinni hér.
Tugmilljarðar til að kaupa óseljanleg bréf
Málið snýst annars vegar um tugmilljarða króna lánveitingar til félagsins Stím ehf., í nóvember 2007 og janúar 2008. Stím var búið til af starfsmönnum Glitnis í þeim tilgangi að kaupa hlutabréf í bankanum sjálfum og stærsta eiganda hans, FL Group, sem bankinn sat uppi með á veltubók sinni. Enginn markaður var fyrir bréfin á því verði sem Stím greiddi fyrir þau.
Lýstar kröfur í bú Stím þegar það fór á hausinn voru rúmlega 24 milljarðar króna. 0,06 prósent fékkst upp í kröfurnar. Ljóst er að fjártjón lánveitenda, Glitnis, var því gríðarlegt. Lárus Welding er ákærður fyrir umboðssvik í tveimur liðum vegna lánveitinganna sem áttu sér stað í nóvember 2007 og í janúar 2008, en hann var forstjóri Glitnis á þeim tíma.
Sjóðsfélagar látnir taka högg Sögu
Hins vegar snýst málið um kaup fagfjárfestasjóðsins GLB FX á víkjandi skuldabréfi af Saga Capital í ágúst 2008. Saga hafði lánað Stím milljarð króna en þegar ljóst varð að Stím var komið með neikvætt eigið fé setti, samkvæmt ákæru, Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, þáverandi forstjóri og eigandi í Sögu Capital, mikinn þrýsting á Glitni að kaupa af sér skuldabréfið. Það var loks gert í ágúst 2008, skömmu fyrir bankahrun, og öll upphæðin auk vaxta endurgreidd til Sögu Capital. Hún nam um 1,2 milljarði króna.
Kaupandinn var umræddur sjóður, GLB FX. Með því var tap vegna Stím fært af Sögu Capital yfir á þá sem áttu hlutdeild í sjóðnum. Þar á meðal voru íslenskir lífeyrissjóðir. Jóhannes Baldursson var framkvæmdastjóri markaðsviðskipta Glitnis á þessum tíma og tók, samkvæmt ákæru, ákvarðanir um að kaupa hið verðlitla skuldabréf á fullu verði. Hann er ákærður fyrir umboðssvik. Þorvaldur Lúðvík er síðan ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikum.
„VICTORY!“
Í ákærunni stendur að umboðssvik Jóhannesar hafi falist í að misnota aðstöðu sína gagnvart umsjónarmönnum sjóðsins, en hann var yfirmaður þeirra, með því að gefa öðrum þeirra fyrirmæli um að ráðstafa rúmlega 1,2 milljarði króna til kaupa á víkjandi skuldabréfi „sem honum var fullkunnugt um að var án raunverulegra trygginga og vonlítið eða vonlaust að fengist greitt. Ráðstöfunin var gerð til hagsbóta fyrir Sögu Capital og var í beinni andstöðu við hagsmuni eigenda sjóðsins“.
Í ákærunni stendur einnig að „Frá desember 2007 og fram í júlí 2008 var ákærði Þorvaldur Lúðvík í miklum samskiptum við ákærða Jóhannes og aðra starfsmenn Glitnis vegna sífellt versnandi stöðu Stíms og þar með yfirvofandi fjártjónshættu Sögu Capital vegna víkjandi kröfu sinnar. Áhyggjur ákærða Þorvaldar Lúðviks koma meðal annars fram í samskiptum við endurskoðendur Sögu Capital og tilraunum hans til að fá frá Glitni einhvers konar skaðleysisyfirlýsingu svo kröfuna þyrfti ekki að afskrifa eða varúðarfæra í bókum Sögu Capital. Gögn málsins sýna að Þorvaldi Lúðvík var fullkunnugt um bágborna stöðu skuldarans Stíms samkvæmt hinu víkjandi skuldabréfi og að hann hafi knúið á um að Glitnir myndi finna lausn á málinu með þeim hætti að Saga Capital fengi efndir fjárkröfu sinnar. Samkvæmt gögnum málsins virðast ákærðu hafa verið búnir að sammælast um að Saga Capital fengi kröfu sína á hendur skuldaranum Stími greidda að fullu, nokkru fyrir viðskiptin í ágúst 2008“. Í ákærunni er einnig greint frá því að „Ákærði Jóhannes hafði samband við ákærða Þorvald Lúðvík á hádegi 14. ágúst 2008 með tölvupósti. Í meginmáli hans stóð einungis: „GLB FX (Glitnir sjóðir hf., GLB FX) kt.5212069420“.
"Fimm mínútum síðar framsendi ákærði Þorvaldur Lúðvík póstinn til samstarfsmanna sinna hjá Sögu Capital og sagði í meginmáli póstsins orðrétt: „VICTORY!“ Seinna sama dag gaf ákærði Þorvaldur Lúðvík þessum sömu samstarfsmönnum fyrirmæli um að útbúa framvirkan samning um sölu á víkjandi skuldabréfinu til GLB FX[...]ákærði Þorvaldur Lúðvík var í senn forstjóri Sögu Capital og eigandi að 12% hlutafjár í fjárfestingabankanum [...]Hafði ákærði Þorvaldur Lúðvík því persónulega og fjárhagslega hagsmuni af því að viðskiptin með hið víkjandi skuldabréf yrðu að veruleika“.