Kjarninn miðlar ehf., félag sem á og rekur Kjarnann, hefur lokið hlutafjáraukningu. Hjálmar Gíslason leiðir hóp fjárfesta með mikla reynslu af frumkvöðlastarfsemi og uppbyggingu nýrra fyrirtækja sem koma nú inn í eigendahóp Kjarnans. Hjálmar verður auk þess formaður nýrrar stjórnar Kjarnans. Þá munu ýmsir sérfræðingar sitja í ráðgjafaráði Kjarnans, en hlutverk þess verður að vera stjórnendum og stjórn Kjarnans innan handar og til aðstoðar við að hrinda í framkvæmd nýjum verkefnum.
Stofnendur og starfsmenn Kjarnans munu áfram eiga rúman meirihluta í félaginu (67 prósent). Tilkynning um breytingu á eigendahópi Kjarnans hefur verið send Fjölmiðlanefnd líkt og lög gera ráð fyrir.
Fjölmörg tækifæri
Hjálmar Gíslason, stofnandi og framkvæmdastjóri Datamarket, leiðir hóp nýrra fjárfesta sem keypt hafa hlut í Kjarnanum. Hjálmar er nýr stjórnarformaður Kjarnans.
Hjálmar Gíslason, stjórnarformaður Kjarnans segir Kjarnann fyrst og fremst vera afburða fjölmiðil. „Á rétt rúmu ári hefur þessum hópi tekist að byggja upp öflugan, gagnrýninn og greinandi fjölmiðil og vörumerki sem fólk treystir. Við sjáum fjölmörg tækifæri til að byggja á þessum grunni, ekki síst í þeim breytingum sem bæði fjölmiðla- og auglýsingamarkaðurinn eru nú að ganga í gegnum. Það fylgir því mikið frelsi og hagkvæmni að einbeita sér að stafrænni miðlun en vera ekki bundinn við ljósvaka- eða prentmiðla. Á sama tíma er íslenski markaðurinn frekar óþroskaður þegar kemur að netinu, sérstaklega hvað varðar auglýsingamiðlun. Ég hef sagt Kjarnateyminu það ítrekað í þessu ferli að ef ég væri að hugsa um að stofna fyrirtæki í dag, yrði það líklega fjölmiðlafyrirtæki.“
Hjalti Harðarson, framkvæmdastjóri Kjarnans segir aðkomu þessa öfluga hóps fjárfesta vera mikla viðurkenningu á þeirri ómældu vinnu sem stofnendur Kjarnans, og þeir sem hafa starfað fyrir miðilinn, hafa lagt á sig. „Nú er Kjarninn loks að verða fullorðinn. Við hlökkum mikið til að byrja að vinna með Hjálmari og félögum. Aðkoma þeirra, þekking og reynsla gerir okkur kleift að sækja fram af miklum krafti næstu misserin og nýta þau fjölmörgu stafrænu tækifæri sem breytt neysla á fjölmiðum hefur leitt af sér.“
Tækifæri í gjörbreyttu fjölmiðlalandslagi
Fyrir mánuði síðan, hinn 2. október, steig Kjarninn fyrsta skrefið í sókn sinni með því að kynna til leiks nýjan og öflugan fréttavef sem sinnir daglegri fréttaþjónustu. Samhliða hófst útgáfa daglegs fréttabréfs Kjarnans auk þess sem hlaðvarpsútgáfa hans var efld. Í nóvember munu sex mismunandi hlaðvarpsþættir vera á dagskrá í hverri viku. Viðtökur við þessum breytingum hafa verið framar vonum.
Á næstunni mun Kjarninn renna enn fleiri stoðum undir þann grunn sem þegar er til staðar og nýta þau tækifæri sem felast í gjörbreyttu fjölmiðlalandslagi til að skapa sterkt Kjarnasamfélag, með áframhaldandi áherslu á gagnrýni, gæði og dýpt í efnistökum.
Eigendur Kjarnans að lokinni hlutafjáraukningu eru:
Miðeind ehf., í eigu Vilhjálms Þorsteinssonar (13,7 prósent), Magnús Halldórsson (13,0 prósent), Þórður Snær Júlíusson (13,0 prósent), Ægir Þór Eysteinsson (11,5 prósent), Gísli Jóhann Eysteinsson (11,5 prósent), Hjalti Harðarson (11,5 prósent), HG80 ehf. í eigu Hjálmars Gíslasonar (8,1 prósent), Fagriskógur ehf., í eigu Stefáns Hrafnkelssonar (6,3 prósent), Ágúst Ólafur Ágústsson (5,0 prósent), Jónas Reynir Gunnarsson (3,2 prósent) og Birgir Þór Harðason (3,2 prósent).
Stjórn Kjarnans skipa Hjálmar Gíslason stjórnarformaður, Guðrún Inga Ingólfsdóttir og Vilhjálmur Þorsteinsson.
Ráðgjafaráð Kjarnans skipa Ágúst Ólafur Ágústsson, Hjalti Þórarinsson, Ragnheiður M. Magnúsdóttir, Rakel Tómasdóttir og Stefán Hrafnkelsson.