Í nýrri skoðanakönnun MMR á trausti til fjölmiðla, sögðust 14,8 prósent aðspurðra bera lítið traust til Kjarnans, það er næst minnsta vantraustið á eftir Fréttastofu RÚV. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinar báru 10,4 prósent þeirra sem tóku afstöðu lítið traust til Fréttastofu RÚV. Mesta vantraustið var í garð DV, en 57,6 prósent aðspurðra sögðust bera lítið traust til blaðsins.
Fréttastofa RÚV er enn í sérflokki hvað varðar traust almennings til fjölmiðla, en 70,6 prósent aðspurðra sögðust bera mikið traust til ríkisfjölmiðilsins, og 64,5 prósent sögðust bera mikið traust til ruv.is. Mbl.is situr í þriðja sæti með 46,7 prósenta traust, og 23,9 prósenta vantraust. Traust til mbl.is hefur dregist nokkuð saman frá því í desember 2008, þegar 64 prósent aðspurðra sögðust bera mikið traust til netfréttamiðilsins. Þá sögðust 27 prósent aðspurðra bera mikið traust til Kjarnans í nýjustu könnun MMR.
Niðurstöður MMR. Samtals tóku 97,2 prósent afstöðu til spurningarinnar.
Traust til helstu prentmiðla dregst saman, traust til DV eykst
Þeir prentmiðlar sem nutu mest trausts meðal almennings voru Morgunblaðið og Fréttablaðið. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 40,6 prósent bera mikið traust til Morgunblaðsins nú, borið saman við við 46,4 prósent í nóvember 2013. Þá sögðust 34,9 prósent bera mikið traust til Fréttablaðsins nú, samanborið við 39,2 prósent í fyrra. Hlutfallslega fleiri sögðust bera lítið traust til Morgunblaðsins en til Fréttablaðsins. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 30,2 prósent bera lítið traust til Morgunblaðsins, á meðan 22,9 prósent sögðust bera lítið traust til Fréttablaðsins.
Traust til fréttamiðla DV hefur aukist frá því í nóvember í fyrra. Af þeim sem tóku afstöðu nú sögðust 14,5 prósent bera mikið traust til DV, borið saman við 10 prósent í fyrra. Þá sögðust 13,2 prósent bera mikið traust til dv.is nú, samanborið við 9,1 prósent í nóvember 2013.