Klakki ehf., sem hét áður Exista, hefur selt allt hlutafé sitt í Vátryggingafélagi Íslands (VÍS). Félagið átti um 15,18 prósent hlut í tryggingafélaginu fyrir viðskiptin. Miðað við gengi bréfa í VÍS í dag fær Klakki rúmlega þrjá milljarða króna í sinn hlut vegna viðskiptanna.
Í upphafi október mánaðar átti Klakki samtals 23,2 prósent hlut í VÍS. Þann 13. október var tilkynnt um að félagið hefði selt 7,99 prósent hlut í VÍS. Kjarninn greindi frá því í lok síðustu viku að lifeyrissjóðirnir Gildi, Stapi og Festa hefðu keyptt hlutinn af Klakka. Ómögulegt hafði verið fram að því að fá staðfestingu á því hver kaupandi bréfanna var. Sjóðirnir þrír keyptu alls um 205 milljón hluti í VÍS í viðskiptunum. Miðað við gengi bréfanna í dag er virði þess hlutar um 1,7 milljarður króna. Hvorki Gildi né Festa áttu hluti í VÍS áður en viðskiptin fóru fram. Gildi er eftir þau fimmti stærsti eigandi VÍS.
Flaggað í Kauphöll
Fyrr í dag var síðan flaggað í Kauphöll Íslands. Í flöguninni kom fram að Klakki, sem hefur átt ráðandi hlut í VÍS um margra ára skeið, hefði selt allan hlut sinn í félaginu, alls 15,18 prósent hlut. Eftir viðskiptin á Klakki ekkert í VÍS. Viðskiptin áttu sér stað í gær og miðað við gengi bréfa í VÍS í dag þá er kaupverðið rúmlega þrír milljarðar króna. Ekki kemur fram hver kaupandinn er.
Klakki, sem er að mestu í eigu Arion banka, þrotabús Kaupþings og vogunarsjóðinn Burlington Loan Management, stærsti erlendi kröfuhafi íslensks atvinnulífs, skilgreinir sig ekki sem langtímafjárfesti í VÍS. Í frétt á heimasíðu félagsins þann 13. október, þar sem tilkynnt var um fyrri söluna í þessum mánuði, kom fram að það muni horfa til „þess að selja eftirstandandi eignarhlut sinn, mögulega í áföngum, á komandi mánuðum“. Nú hefur orðið að því.