Egill Ágústsson, forstjóri Íslensk Ameríska, segir að systursonur konu hans, sem starfaði hjá Kaupþingi í Lúxemborg hafi haft samband við hann að beiðni Hreiðars Más Sigurðssonar, þá forstjóra Kaupþings, og Magnúsar Guðmundssonar, þá forstjóra Kaupþings í Lúxemborg, til að fá Egil til að kaupa hlutabréf í Kaupþingi í upphafi árs 2008. Hann hafi á þeim tíma ekki átt nein bréf í bankanum. Eftir að Egill hafi sagst ekki hafa áhuga á að kaupa nein hlutabréf sagði systursonur konu hans, Einar Bjarni Sigurðsson sem var líka viðskiptastjóri Egils, að hann gæti fengið hlutabréfið eingöngu með veði í bréfunum sjálfum og að hann þyrfti ekki að leggja fram neinar tryggingar. Engin áhætta átti að vera fyrir Egil af þessum viðskiptum. Þetta kom fram í vitnaleiðslum yfir Agli í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings í morgun. Frá þessu er greint á Vísi.is.
Í kjölfarið hafi félag Egils keypt hluti í Kaupþingi fyrir alls 13,4 milljarða króna fram að bankahruni, allt fyrir lánsfé úr Kaupþingi. Egill segir að þorri þeirra kaupa hafi átt sér stað án þess að haft væri samband við hann. Bréfin hafi einfaldlega verið keypt án hans vitneskju.
Þegar saksóknari spurði Egil um hvenær hann hefði komist að því að félag hans, sem hét Desulo Trading, hefði átt í þessum miklu viðskiptum með hlutabréf í Kaupþingi sagði Egill: „Þegar ég las Rannsóknarskýrslu Alþingis.”
Alls eru níu fyrrum starfsmenn Kaupþings ákærðir í málinu. Þeirra á meðal eru Hreiðar Már, Magnús og Sigurður Einarsson, fyrrum starfandi stjórnarformaður Kaupþings. Ákærðu er gefið að sök að hafa ýmist komið í veg fyrir eða hægt á lækkun á verði hlutabréfa í Kaupþingi, frá hausti 2007 og fram að falli bankans haustið 2008, og aukið seljanleika þeirra með „kerfisbundnum“ og „stórfelldum“ kaupum, eins og segir í ákæru, í krafti fjárhagslegs styrks bankans.
Fékk 13,4 milljarða króna að láni
Forsaga þessa anga málsins, sem var til umfjöllunar í morgun, er sú að Kaupþing hafði samband við Egil árið 2008 og bað hann um að eiga eignarlaust félag sem kallaðist Desulo Trading og var skráð á Kýpur. Frá því í maí 2008 og fram að bankahruni lánaði Kaupþing þessu eignarlausa félagi 13,4 milljarða króna til að kaupa hlutabréf í Kaupþingi, mest megnis af Kaupþingi. Síðasta lánveitingin til þessa var framkvæmd 25. september 2008, sama dag og persónulegar ábyrgðir starfsmanna Kaupþings á lánum til hlutabréfakaupa voru felldar niður,og örfáum dögum áður en bankinn féll. Hún var upp á rúma fjóra milljarða króna.
Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kemur auk þess fram að Desulo, sem átti þá minna en ekkert, þar sem hlutabréfin í Kaupþingi höfðu lækkað töluvert í verði, hafi gert framvirkan kaupsamning um hlutabréf í finnska félaginu Sampo í september 2008 upp á tæplega 30 milljarða króna. Sampo var í eigu Exista, stærsta eiganda Kaupþings.