Skammur fyrirvari, ferðatími til Parísar og dagskrá ráðherra varð til þess að hvorki Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra né Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sáu sér fært um að taka þátt í samstöðugöngu sem fram fór í París í gær vegna hryðjuverkaárásanna sem framdar voru þar í síðustu viku. Þess í stað var Nína Björk Jónsdóttir, staðgengill sendiherra Íslands í Frakklandi, fulltrúi Íslands í göngunni. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef forsætisráðuneytisins.
Yfir 40 þjóðarleiðtogar mættu í gönguna til að sýna samstöðu, meðal annars forsætisráðherrar allra hinna Norðurlandanna.
Mbl.is greindi frá því í gær að Sigmundi Davíð hafi verið boðið í gönguna en að hann myndi ekki mæta í hana. Engar skýringar voru gefnar á fjarveru forsætisráðherrans í frétt mbl.is. Þær skýringar voru fyrst gefnar í gærkvöldi í tilkynningu á vef forsætisráðuneytisins.
Tilkynning forsætisráðuneytisins:
„Vegna fréttaflutnings af boði til íslenskra stjórnvalda um þátttöku fulltrúa Íslands í samstöðugöngu í París í dag vill forsætisráðuneytið koma leiðréttingum á framfæri og árétta eftirfarandi:
Í kjölfar atburðanna í París í liðinni viku átti forsætisráðherra fund með Philippe O´Quin, sendiherra Frakklands á Íslandi. Á fundinum kom forsætisráðherra formlega á framfæri samstöðu- og samúðarkveðjum frá ríkisstjórninni og íslensku þjóðinni vegna hryðjuverkaárásanna á ritstjórnarskrifstofu Charlie Hebdo í París og sagði árásina grimmúðlega atlögu að tjáningar- og prentfrelsi, sem eru grundvallargildi og mannréttindi sem brýnt er að standa vörð um. Forsætisráðherra gerði sendiherranum grein fyrir því að atburðirnir hefðu haft mikil áhrif á sig og bar lof á einurð og samstöðu Frakka í að láta ekki undan ógnunum.
Síðla dags á föstudag barst forsætisráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu og skrifstofu forseta Íslands orðsending frá sendiráði Frakklands á Íslandi þar sem segir að erlendum gestum standi til boða að taka þátt í samstöðugöngunni sem efnt var til í París í dag. Í bréfinu voru einnig þakkaðar orðsendingar og auðsýnd samúð og samstaða íslenskra stjórnvalda vegna málsins.
Rétt er að taka fram, að ekki var um að ræða boð Frakklandsforseta til forsætisráðherra Íslands eins og haldið var fram í nokkrum fréttum í dag.
Þá er einnig rétt að leiðrétta fullyrðingar um að boð Frakka til Íslendinga um að senda fulltrúa til athafnarinnar hafi á einhvern hátt verið afþakkað. Hvorki forsætisráðherra né aðrir afþökkuðu boðið. Strax og tilkynning barst um samstöðufundinn var hafist handa við að gera ráðstafanir svo hægt yrði að þiggja boðið og tryggt yrði að fulltrúi Íslands mætti.
Forsætisráðherra lét kanna hvort möguleiki væri á að hann gæti mætt sjálfur til athafnarinnar. Vegna ýmissa samverkandi þátta, einkum skamms fyrirvara, ferðatíma og dagskrár ráðherra, var hvorki forsætis- né utanríkisráðherra fært að taka þátt í göngunni. Fulltrúi Íslands í henni var Nína Björk Jónsdóttir, staðgengill sendiherra Íslands í Frakklandi."