Samkvæmt lögfræðiáliti sem unnið var að beiðni Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) í lok september brýtur komugjald á flug- og skipafarþega ekki í bága við EES-samninginn, ef tryggt er að þau taki með sambærilegum hætti til millilanda- og innanlandsflugs. Þrátt fyrir niðurstöðu lögfræðiálitsins, og vilja félagsmanna SAF að samtökin beittu sér fyrir innleiðingu komugjalda, ákvað stjórn SAF að þau væru ekki álitlegur kostur til að afla fjár til náttúruverndar.
Eins og Kjarninn greindi frá í gær, stóð vilji félagsmanna SAF til þess að samtökin legðu áherslu á að komið yrði á sérstöku komugjaldi, til að standa straum af kostnaði við bráðnauðsynlega uppbyggingu og verðveislu ferðamannastaða á Íslandi. Hækkun gistináttagjaldsins var fjórði álitlegasti kosturinn í stöðunni að mati félagsmanna SAF, og náttúrupassi, sem er sú leið sem Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hefur nú ákveðið að fara, hafnaði í sjötta sæti.
Samkvæmt könnun sem SAF framkvæmdi á meðal sinna félagsmanna, lögðu þeir sömuleiðis áherslu á að ásýnd ferðamannastaða tæki ekki breytingum vegna fyrirhugaðrar gjaldtöku, til að mynda með tilkomu gjaldskýla eða eftirlitsmanna.
Þrátt fyrir eindregin vilja félagsmanna SAF um að komugjöldum yrði komið á lagði stjórn samtakanna til á dögunum að gistináttagjaldið yrði hækkað til að fjármagna náttúruvernd. Samkvæmt heimildum Kjarnans olli ákvörðun stjórnarinnar, að ganga gegn vilja félagsmanna, töluverðri furðu og reiði meðal hótel- og gistihúsaeigenda, sem að minnsta kosti í einu tilfelli leiddi til úrsagnar úr samtökunum.
Ákvörðun sem sögð var byggja á ítarlegri úttekt
Í samtali við Kjarnann lagði Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri SAF, ríka áherslu á að ákvörðun stjórnarinnar hefði byggt á ítarlegri úttekt hennar á þeim gjaldtökuleiðum sem félagsmenn SAF vildu helst að samtökin fylktu sér á bakvið. Þá hafi til að mynda atvinnuvegaráðuneytið tjáð samtökunum að sérstök komu- og landamæragjöld brjóti í bága við alþjóðlega samninga eins og Schengen og samninginn um evrópska efnahagssvæðið. Fullyrðingar ráðuneytisins, að því er framkvæmdastjóri SAF segir, eru athyglisverðar í ljósi þess að komugjöld lifa góðu lífi innan Evrópusambandsins, meðal annars í Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi.
Í viðleitni sinni til að kanna gerleika komugjalda, leitaði SAF eftir lögfræðiáliti hjá lögmannsstofunni LEX. Kjarninn hefur lögfræðiálitið undir höndum og birtir hér. Þar kemur fram að sérstakt komugjald sé vel raunhæfur möguleiki.
Samkvæmt lögfræðiáliti sem unnið var að beiðni SAF eru komugjöld álitlegur kostur til að afla fjár til náttúruverndar.
Álitsgerð sem segir aðra sögu
Samkvæmt álitsgerðinni, sem dagsett er 6. október síðastliðinn, beindi SAF tilteknum spurningum til lögmannsstofunnar í tveimur liðum. Annars vegar: „Er eitthvað því til fyrirstöðu að sett verði komugjöld eða brottfarargjöld á flugfarþega sem yrðu innheimt í gegnum farseðla? Hvernig væri samhliða hægt að innheimta slík gjöld af skipafarþegum?“ Og hins vegar: „Er eitthvað því til fyrirstöðu að sett verði komugjöld/landamæragjöld á farþega og innheimt við landamæri, svo sem í flugstöðvum og við hafnir?“
Lögmannstofan skoðaði sérstaklega hvernig slík gjaldtaka samræmist ákvæðum EES-samningsins. Þar komu einkum til skoðunar reglur um frjálst flæði þjónustu og bann við mismunun. Kjarni EES-samningsins felst í því að með honum mynda aðildarríki samningsins einn sameiginlegan innri markað sem grundvallast á reglunum um hið svokallaða fjórfrelsi, það er frjálsa vöruflutninga, frjálsa fólksflutninga, frjálsa þjónustustarfsemi og frjálsa fjármagnsflutninga.
Samkvæmt lögfræðiálitinu var það talið afar varhugavert að ráðast í innheimtu á sérstöku landamæragjaldi, með vísan til þess að einstaklingar hefðu ferðast yfir íslensk landamæri. Þá myndi slík gjaldtaka vera í andstöðu við þau meginmarkmið um sameiginlegan innri markað sem EES-samningurinn hvíli á, enda feli hún í sér meðal annars hindrun á frjálsum fólksflutningum og frjálsri þjónustustarfsemi, auk þess sem hún myndi bitna með ríkari hætti á einstaklingum sem hafa búsetu utan Íslands. Það kynni að vera ígildi mismununar á grundvelli þjóðernis eða búsetu, sem sé í andstöðu við grundvöll samningsins.
Annað var upp á teningnum hvað sérstök komugjöld varðar, samkvæmt lögfræðiálitinu frá LEX. Þar kemur fram að meginreglan sé sú að aðildarríkjum sé í sjálfsvald sett hvernig þau haga þess háttar skattlagningu og stefnumótun í þeim efnum. Hins vegar megi ekki mismuna farþegum í innanlands- og millilandaflugi, án sérstakrar réttlætingar sem yrði vankvæðum háð að rökstyðja.
Þá segir orðrétt í samandregnu svari lögmannstofunnar við fyrri spurningu SAF, hvað varðar komugjöld eða brottfarargjöld: „Ætla má að unnt sé að leggja á komu-eða brottfarargjöld vegna flugfarþega eða skipafarþega hér á landi ef tryggt er að þau taki með sambærilegum hætti til ferða á milli aðildarríkja EES-svæðisins og ferða innanlands. Dómaframkvæmd bendir til þess að hvers konar fyrirkomulag við gjaldtöku sem leggst með þyngri hætti á ferðalög milli aðildarríkja EES-svæðisins en ferðalög innanlands skerði þjónustufrelsi. Þá mega slík gjöld ekki fela í sér mismunun eftir þjóðerni eða búsetu og skulu því taka jafnt til íslenskra ríkisborgara og ríkisborgara annarra aðildarríkja EES-svæðisins.“
Stuðningur við náttúrupassann fer ört minnkandi
Aðilar innan ferðaþjónustunnar hafa talað fyrir því að komugjaldi verði komið á fót til að afla tekna til að standa undir bráðnauðsynlegri uppbyggingu og varðveislu ferðamannastaða á Íslandi. Hugmyndin nýtur töluverðs fylgis innan geirans, eins og vilji félagsmanna SAF ber með sér. Ljóst má vera að stórir hagsmunaðilar í flugrekstri hér á landi hafa barist með kjafti og klóm gegn því að komugjaldið renni inn í farmiðaverð þeirra.
Samkvæmt könnun MMR, sem birtist í gær, hefur orðið mikil breyting a afstöðu almennings til náttúrupassans svokallaða. Í könnuninni sögðust 31,2 prósent aðspurðra fylgjandi passanum, samanborið við 47,2 prósent í apríl. Þá eru þeir sem styðja ríkisstjórnina frekar fylgjandi passanum en aðrir, og eldra fólk sömuleiðis. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar er helmingur íbúa höfuðborgarsvæðisins á móti passanum, en 28,3 prósent fylgjandi.