Félag kvenna í lögmennsku er ósátt við Lögmannafélag Íslands og segir túlkun félagsins um að dómstólalög gangi framar jafnréttislögum sé „ótæk og til þess fallin að draga úr áhrifum jafnréttislaga á vinnumarkaði sem og annars staðar í samfélaginu.“
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá félaginu í tilefni frétta um skipun dómnefndar til að fjalla um hæfi umsækjenda um dómaraembætti. Fimm karlar skipa þá nefnd, og karlarnir fimm völdu Karl Axelsson hæfastan þriggja umsækjenda um embætti hæstaréttardómara á dögunum.
Lögmannafélagið, Hæstiréttur og dómstólaráð telja að þau séu ekki bundin af jafnréttislögum þegar kemur að því að skipa sína fulltrúa í dómnefndina. Þau telja að ákvæði um nefndina í lögum um dómstóla gangi framar jafnréttislögunum, og eftir bréfaskriftir við dómsmálaráðuneytið ákvað ráðuneytið að láta undan og skipa eingöngu karla í nefndina.
„Stjórn FKL tekur undir með Guðrúnu Erlendsdóttur, fyrrum hæstaréttardómara og heiðursfélaga FKL, um að skipun fimm karlmanna í nefndina sé hreint og klárt brot á jafnréttislögum. Að mati FKL er brotið sérlega alvarlegt í ljósi þess að í dag er eingöngu ein kona skipuð dómari við Hæstarétt og því einkar mikilvægt að jafna kynjahlutföll á vettvangi þessa æðsta dómstóls landsins.“
Þá segir í yfirlýsingunni að framkvæmdin sem hefur verið viðhöfð við skipun í nefndina stríði gegn markmiði laganna, sem sé að vinna að jöfnum áhrifum karla og kvenna í samfélaginu. Þar með sé útilokað að konur geti haft áhrif á það hver verði skipaður dómari við Hæstarétt Íslands.
Félag kvenna í lögmennsku sendir frá sér eftirfarandi yfirlýsingu vegna umfjöllunar síðustu daga um skipun í nefnd er...Posted by Félag kvenna í lögmennsku on Friday, September 25, 2015