Konur voru 25,5 prósent stjórnarmanna fyrirtækja sem eru skráð í hlutafélagaskrá í fyrra. Það er hækkun upp á 0,4 prósentustig frá árinu á undan. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofu Íslands. Hlutfall kvenna sem eru í stöðu stjórnarformanna var 23,8 prósent í lok ársins 2014, en það er svipað hlutfall og undanfarin ár.
Konum hefur fjölgað í stjórnum stærri fyrirtækja undanfarin ár og voru þriðjungur stjórnarmanna í fyrirtækjum með 50 starfsmenn eða fleiri í fyrra. Lög hafa verið í gildi frá árinu 2010 sem kveða á um að hlutfall hvort kyns í fyrirtækjum með 50 starfsmenn eða fleiri skuli vera yfir 40 prósent. Þau tóku að fullu gildi í september 2013.
Hlutfall kynja í stjórnum minni fyrirtækja, með færri en 50 starfsmenn, hefur lítið breyst undanfarin ár.
Hlutfall kvenna í stöðu framkvæmdastjóra hækkaði lítillega milli ára, úr 21,4 prósentum í 21,6 prósent. Að sögn Hagstofunnar heldur því áfram hægfara aukning á fjölda kvenna í framkvæmdastjórastöðum.