Haustið 2014 voru 108 konur starfandi skólastjórar í grunnskólum á Íslandi en voru 68 haustið 1998. Á sama tíma fækkaði körlum í skólastjórastétt um 62 og voru 63 haustið 2014.
Frá þessu greindi Hagstofan í dag. Um haustið 2014 starfaði 901 karl við kennslu í grunnskólum landsins, eða 18,7 prósent starfsfólks við kennslu. Körlum hefur farið fækkandi meðal kennara frá 1998, þegar karlar voru 26 prósent kennara. Á sama tíma hefur konum við kennslu fjölgað og voru 3.911 haustið 2014.
Auglýsing
Meðalaldur starfsfólks við kennslu í grunnskólum hefur farið hækkandi frá árinu 2000. Haustið 2000 var meðalaldur starfsfólks við kennslu 42,2 ár en var 46,4 ár haustið 2014. Á þessu tímabili hefur meðalaldur kvenkennara hækkað meira eða úr 41,8 árum í 46,5 ár. Meðalaldur karlkennara hefur hækkað úr 43,6 árum í 46,0 ár. Meðalaldur kennara án réttinda er töluvert lægri en réttindakennara og hefur svo verið á öllu tímabilinu. Haustið 2014 var meðalaldur kennara með kennsluréttindi 46,7 ár en meðalaldur kennara án kennsluréttinda 39,1 ár.
Þá kemur fram í frétt Hagstofunnar að nemendum í grunnskólum á Íslandi hafi fjölgað annað árið í röð og voru 43.136 talsins um haustið 2014.