Kjósa þarf aftur til rektors Háskóla Íslands milli Guðrúnar Nordal og Jóns Atla Benediktssonar. Úrslit í rektorskjörinu urðu ljós nú í kvöld. Mjög litlu munaði að Jón Atli næði kjöri.
Jón Atli hlaut 49,9 prósent gildra atkvæða, Guðrún hlaut 40,1 prósent og þriðji frambjóðandinn, Einar Steingrímsson, hlaut 10 prósent gildra atkvæða. Þar sem enginn frambjóðandi fékk meirihluta verður kosið aftur milli Guðrúnar og Jóns Atla þann 20. apríl.
Gild atkvæði voru 6.160. Á kjörskrá voru 14.110, þar af 1.486 starfsmenn og 12.624 stúdentar. Við kosningar greiddu atkvæði alls 1.286 starfsmenn eða 86,6% á kjörskrá og 5.080 stúdentar eða 40,2% á kjörskrá. Alls greiddu 6.366 atkvæði og var því kosningaþátttaka í heild 45,1%. Atkvæði utan kjörfundar voru 71 og auðir seðlar voru 206 eða 3,2% af greiddum atkvæðum.