Hópurinn sem stóð að útifundum á Austuvelli vorið 2014, þar sem krafist var að kosið yrði í þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið (ESB), hefur sent frá sér áskorun þar sem krafan er ítrekuð. Áskorunin kemur í kjölfar þess að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra boðaði að nýtt frumvarp um viðræðuslit yrði líklega lagt fram á þessu þingi. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fylgdi í kjölfarið og sagði að þingflokkur hans myndi styðja við slíkt frumvarp.
Nokkur þúsund manns mótmæltu nokkrar helgar í röð í febrúar og mars á síðasta ári í kjölfar þess að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra lagði fram tillögu um að slíta viðræðum við ESB. Frumvarpið var lagt fram í kjölfar birtingar skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gerði um viðræðurnar. Samkvæmt henni voru verulega litlar líkur á því að Ísland geti fengið undanþágur frá grunnregluverki ESB. Skömmu síðar kom út skýrsla Alþjóðastofnunar Háskóla Íslands sem sýndi allt aðra niðurstöðu og sagði að Ísland hefði þegar náð fram ýmis konar undanþágum.
Á meðal aðstandenda útifundanna var Benedikt Jóhannesson.
Skipuleggjendur mótmælendanna, og margir þátttakendanna í þeim, töldu að stjórnarflokkarnir tveir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, hefðu lofað því fyrir síðustu kosningar að slíta ekki viðræðum við ESB nema að undangenginni þjóðaratkvæðargreiðslu um málið.
Ályktun aðstandenda útifundanna við Austurvöll vorið 2014:
Við krefjumst þess enn að staðið verði við loforðið um þjóðaratkvæðagreiðslu!
Fyrir alþingiskosningarnar 2013 lofuðu flestir ráðherrar ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið.
Eftir kosningarnar ákvað ríkisstjórnin hins vegar að standa ekki við loforðið og lagði fram frumvarp um að umsókn Íslands yrði afturkölluð.
Ákvörðunin vakti mikla reiði og þúsundir lögðu leið sína á Austuvöll og kröfðust þess að stjórnmálamenn stæðu við orð sín. Eins kom fram í skoðanakönnunum að 82% landsmanna vildu taka ákvörðun um málið í þjóðaratkvæðagreiðslu og 53.555 Íslendingar skrifuðu undir áskorun þar um til ráðamanna.
Þessi miklu viðbrögð endurspegluðu megna óánægju Íslendinga með meðhöndlun málsins. Almenningur reis með afgerandi hætti upp gegn ríkisstjórninni og skilaboðin voru skýr og afdráttarlaus. Að lokum hætti stjórnin við að afgreiða frumvarpið um afturköllun umsóknar.
Það eru mikil vonbrigði að sjá ríkisstjórnina undirbúa sams konar tillögu, um afturköllun umsóknar, á nýju ári. Því verður svarað fullum hálsi; ríkisstjórn sem gengur gegn vilja þjóðarinnar, er ekki ríkisstjórn þjóðarinnar.
Formaður Sjálfstæðisflokksins lofaði því, fyrir alþingiskosningarnar 2013, að þjóðaratkvæðagreiðslan skyldi fara fram á fyrri hluta kjörtímabilsins. Hann getur enn staðið við loforðið með því að leggja fram frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir 27. janúar (boða þarf til kosninga með þriggja mánaða fyrirvara).
Við krefjumst þess, nú sem áður, að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs falli frá áformum um að afturkalla umsóknina og standi við loforðið um þjóðaratkvæðagreiðslu.
Aðstandendur útifundanna á Austurvelli vorið 2014