Kristján Loftsson, stjórnarformaður HB Granda og aðaleigandi Hvals hf., vill að lífeyrissjóðir skipti sér ekki af aðalfundum þeirra félaga sem sjóðirnir eiga hlut í. Fréttablaðið greinir frá málinu.
Samkvæmt umfjöllun blaðsins lagði Kristján fram tillögu þessa efnis á ársfundi Gildis lífeyrissjóðs á dögunum, en þar sem tillagan barst of seint var hún ekki tæk á fundinum. Kristján hyggst engu að síður vinna skoðun sinni fylgis innan Samtaka atvinnulífsins (SA) og vill að samtökin leggi fram sambærilega tillögu.
„Aðalmálið er það lífeyrissjóðir eiga að fjárfesta. Þeir eiga að hugsa um hag fjárfesta og það er ekki þeirra hlutverk að skipta sér af hlutafélögum sem þeir fjárfesta í Ef þeir er óánægðir með félögin eiga þeir bara að selja hlut sinn í þeim,“ segir Kristján Loftsson í Fréttablaðinu. Hann segist finna fyrir stuðningi innan SA, en „það þorir bara enginn að segja frá því.“
Sigurður Bessason, formaður Eflingar, er ekki á sömu línu og Kristján Loftsson, eðlilegt sé að lífeyrissjóðirnir reyni í hvívetna að gæta sinna hagsmuna. Þá hefur Fréttablaðið eftir Þorsteini Víglundssyni, framkvæmdastjóra SA að skoðanaleysi lífeyrissjóðanna væri óheppilegt. Hins vegar sé brýnt að þeir marki sér stefnu um hvernig þeir beiti sér og hvernig þær ætli sér að vera virkir hluthafar.