Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir að staða Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra, hafi veikst vegna Orku Energy málsins. Illugi hefði lagt sín spil á borðið að undanförnu og útskýrt málið. Kristján er því ekki þeirrar skoðunar að samráðherra hans í ríkisstjórn eigi að segja af sér, en segir að Illugi hefði átt að skýra sína hlið mun fyrr. Þetta kom fram í viðtali við Kristján Þór í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.
Illugi hefir legið undir ámæli vegna tengsla sinn við Hauk Harðarson, stjórnarformann fyrirtækisins Orku Energy. Haukur réð Illugu sem ráðgjafa fyrirtækis síns á meðan að Illugi var í launalausu leyfi frá þingstörfum vegna rannsóknar á peningamarkaðssjóði Glitnis, Sjóði 9, þar sem Illugi sat í stjórn fyrir bankahrunið. Haukur keypti síðan íbúð Illuga af honum í fyrrasumar og leigði honum hana síðan aftur. Illugi var þegar orðinn ráðherra þegar hann seldi íbúðina, en það gerði hann eftir að „nokkur fjárhagsleg áföll“ höfðu dunið á honum.
Fjölmiðar hafa ítrekað óskað frekari skýringa á ýmsum flötum málsins frá Illuga undanfarna mánuði, en án árangurs. Hann tjáði sig loks um hluta málsins í viðtali við Fréttablaðið á föstudag og viðurkenndi þá að það hefðu verið mistök að svara ekki fjölmiðlum. Ekkert í málinu kalli hins vegar á afsögn hans sem ráðherra eða þingmanns.
Síðar sama dag kom Illugi í viðtal í beinni útsendingu við fréttastofu Stöðvar 2 til að útskýra meintar lánveitingar Orku Energy til sín. Samkvæmt launaseðlinum var ekki um lán að ræða heldur fyrirframgreidd heildarlaun upp á 5,6 milljónir króna. Samtals nam fyrirframgreiðslan 2.950 þúsund krónum.
Þorbjörn Þórðarson, fréttamaðurinn sem tók viðtalið við Illuga, birti launaseðilinn á Twitter-síðu sinni síðar um kvöldið.
Launaseðill Illuga Gunnarssonar frá Orku Energy gefinn út í febrúar 2012. Launauppgjör vegna vinnu á árinu 2011. pic.twitter.com/vvM5hIh4xJ
— Þorbjörn Þórðarson (@thorbjornth) October 9, 2015