Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir að enginn starfsmaður heilbrigðisráðuneytisins hafi aðkomu að TISA-viðræðunum, hann hafi ekkert heyrt um tillögu um viðauka við samninginn sem í fólst að fella markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustu undir hann og að afstaða Íslands til þessa, sem var opinberuð í frétt Kjarnans í gær, hafi ekki verið borin undir hann.
Þetta kom fram í svörum Kristjáns Þórs við óundirbúinni fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, í þinginu í dag. Fyrirspurn Katrínar byggði á frétt Kjarnans frá því í gær um að tillaga hafi verið lögð í TISA-viðræðulotu í september sem í fólst að auka samkeppni um heilbrigðisþjónustu á milli landa með því að markaðsvæða þjónustuna. Kjarninn birti gögn sem sýndu fram á þetta. Upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins sendi Kjarnanum síðan póst í gærkvöldi þar sem fram kom að Ísland telji tillöguna ekki eiga heima í viðræðunum og taki ekki þátt í viðræðum um að gera hana að viðauka við TISA-samninginn.
Ísland er eitt þeirra 50 landa sem er aðili að TISA-viðræðunum, sem eiga að auka frelsi í þjónustuviðskiptum milli landa.
Svo mikil leynd að ráðherrar málaflokka vita ekkert
Katrín spurði Kristján hvort honum hafi verið kunnugt um tillöguna og hver afstaða hans væri til hennar. Kristján sagðist fyrst hafa heyrt um hana í fréttum í gær og að enginn starfsmaður hans ráðuneytis kæmi að viðræðunum. Utanríkisráðuneytið hafi síðan veitt þær upplýsingar að það telji að tillagan eigi ekki heima í TISA-viðræðunum.
Katrín kom þá aftur í pontu og sagðist telja það all nokkur tíðindi ef heilbrigðisráðherra læsi um að tillaga sem þessi væri orðin hluti af samningsviðræðunum og að utanríkisráðuneytið hafi lýst yfir afstöðu sinni til málsins án þess að upplýsa Kristján.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, spurði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra út í TISA-viðræðurnar í dag.
Katrín sagði það undarlegt að Ísland tæki þátt í viðræðum sem svo mikil leynd hvíldi yfir að ráðherrar í ríkisstjórn vissu ekki að verið væri að ræða þeirra málaflokka. Auk þess fengi almenningur í landinu mjög litlar upplýsingar um viðræðurnar og utanríkisráðuneytið hefði raunar lýst því yfir að leynd myndi hvíla yfir öllum upplýsingum þangað til að samningur yrði undirritaður. Hún spurði Kristján að lokum hvort hann væri sammála afstöðu utanríkisráðuneytisins í málinu.
Kristján svaraði fyrirspurninni með því að segja: „Það er margt á huldu í utanríkisráðuneytinu og utanríkismálum. Það er alveg á hreinu.“ Hann hafi hins vegar engar forsendur til að tjá sig um eða taka afstöðu til máls sem hann þekki ekki "hætishót" til.
Telja ónýtta möguleika vera í markaðsvæðingu heilbrigðistþjónustu
Samkvæmt tillögunni sem lögð var fram í TISA-viðræðulotunni í september eru miklir ónýttir möguleikar til að alþjóðavæða heilbrigðisþjónustu, aðallega vegna þess að heilbrigðisþjónusta er að mestu fjármögnuð og veitt af ríkjum eða velferðarstofnunum. Það er því nánast ekkert aðdráttarafl fyrir erlenda samkeppnisaðila til að keppa um að veita hana vegna þess hversu lítið markaðsvætt umhverfi hennar er.
Það var samningsnefnd Tyrklands sem lagði fram tillöguna en hún var rædd í áttundu viðræðulotu TISA-viðræðnanna sem fór fram í Genf í september síðastliðnum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýjum gögnum sem Kjarninn birtir í dag í samstarfi við Associated Whistleblowing Press (AWP) og fjölmiðla víðsvegar um heiminn. Gögnunum var lekið til AWP sem hefur unnið að birtingu þeirra undanfarið. Hægt er að nálgast gögnin í heild sinni hér.
Næsta viðræðulota í TISA-viðræðunum, sú tíunda, hefst í næstu viku.