„Ég treysti mér nú til flestra verka sem að heyra undir heilbrigðisráðherra, ef að svo væri ekki þá væri ég nú ekki að takast á við þetta starf, ef ég treysti mér ekki til þeirra verka sem heilbrigðisráðherra er falið með lögum.“
Þetta sagði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra í Vikulokunum á Rás 1 í dag, aðspurður um ástæðu þess að Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, lagði fram frumvarp um lagasetningu á verkföll einstakra aðildarsambanda BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Þáttastjórnandinn Helgi Seljan hafði þá spurt Krisján Þór hvort hann hefði ekki treyst sér sjálfur til að leggja frumvarpið fram.
„Þetta var ákvörðun ríkisstjórnar að fela landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra að færa fram frumvarpið.“ Aðspurður um hvort Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hafi ekki viljað leggja frumvarpið fram, svaraði heilbrigðisráðherra: „Þú verður bara einfaldlega að spyrja hann að því.“
Samkvæmt heimildum Kjarnans gætir töluverðrar óánægju innan raða þingflokks sjálfstæðisflokksins, að forsætisráðherra hafi ekki lagt umrætt frumvarp fram fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.
Kristján Þór kveðst styðja ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að leggja frumvarpið fram með þessum hætti. „Ég vil bara leggja höfuðáherslu á það í umræðu um þetta, þá er það í mínum huga ekki aðalatriði máls. Aðalatriði máls, varðandi þessa lagasetningu, er spurningin hvers vegna erum við að setja þessi lög? Ég hef reynt að svara því með þeim hætti að ég hef forgangsraðað því í mínum huga þannig að það sé fyrst og fremst gert í þágu þess að heilbrigðiskerfið geti þjónustað það fólk sem á við mestan vanda í sínu heilsufari að glíma. Menn eiga miklu frekar að beina sjónum sínum að því,“ sagði heilbrigðisráðherra í Vikulokunum á Rás 1 í morgun.