Kröfuhafar Kaupþings samþykktu á fundi í Hörpu í dag að greiða 120 milljarða króna í stöðugleikaframlag til ríkisins. Kröfuhafarnir samþykktu einnig skaðleysi ríkisins og Seðlabankans, það er að ekki verði höfðað mál á hendur þeim vegna samninga tengdum nauðasamningum og losun fjármangshafta. Þá var einnig samþykkt að setja upp skaðleysisjóð fyrir slitastjórnina og ráðgjafa hennar, vegna mögulegra málaferla á hendur þeim. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Samþykki kröfuhafa í dag þýðir að hvorki þeir né slitabúin geta höfðað mál á hendur íslenska ríkinu eða Seðlabankanum vegna hugsanlegra skaðabóta sem þeir kunna að eiga rétt á í tengslum við framkvæmd fjármagnshafta og uppgjör búanna.
Skaðleysisjóðurinn er sambærilegur sjóði sem kröfuhafar Glitnis hafa þegar samþykkt, og er að andvirði tíu milljarða króna. Ætlunin er að tryggja slitastjórnarmeðlimum skaðleysi vegna mögulegra málsókna gegn þeim er tengjast uppgjöri búanna. Það er ekki að ástæðulausu sem krafist er skaðleysis. Uppgjör föllnu íslensku bankanna er nær fordæmalaust í heimssögunni og upphæðirnar sem undir eru stjarnfræðilega háar. Eignir Glitnis eru til að mynda tæpir eitt þúsund milljarðar króna.
Þá hefur slitastjórnarmönnum í Kaupþingi verið stefnt, og bræðurnir Vincent og Robert Tchenguiz hafa báðir stefnt Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni fyrir breskum dómstólum, auk þess sem þeir hafa stefnt slitastjórninni og Vincent stefndi endurskoðunarfyrirtækinu Grant Thornton og tveimur starfsmönnum þess.