Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) fær að öllum líkindum á annað milljarð króna takist íslenska karlalandsliðinu að tryggja sér þátttökurétt á Evrópumótinu í Frakklandi næsta sumar. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu. Liðið þarf í mesta lagi eitt stig til að tryggja þann rétt, en svo gæti einnig farið að liðið væri þegar búið að tryggja sig áfram áður en leikur þess við Kasakstan, sem fer fram á sunnudagskvöld, hefst. Geri Tyrkir og Hollendingar, sem leika fyrr um daginn, jafntefli, mun það duga Íslendingum til að komast á lokamót í fyrsta sinn.
Í Morgunblaðinu segir að þær upplýsingar hafi fengist hjá Knattspyrnusambandi Evrópu (UEFA) að ákvörðun um greiðslur fyrir þátttöku á EM næsta sumar yrði tekin um áramótin. Í svari sínu til blaðsins var auk þess vísað til greiðslna sem lið fengu fyrir þátttöku á EM 2012. Þá fékk hvert lið um átta milljónir evra fyrir að komast á lokamótið, eða 1.160 milljónir króna. Auk þess fékk hvert lið greidda um hálfa milljón evra, um 70 milljónir króna, fyrir jafntefli í riðlakeppninni og milljón evrur, um 140 milljónir króna, fyrir sigurleik. Lið sem urðu í þriðja sæti í riðli sínum fengu auka milljón evra en tvö efstu liðin fóru áfram í útsláttarkeppni þar sem greiðslur jukust. Mest fékk liðið sem fékk gullverðlaun, eða 7,5 milljónir evra.
Morgunblaðið hefur reiknað það út að ef Ísland kæmist í 16 liða úrslit í Frakklandi gæti samanlögð greiðsla liðsins fyrir þátttöku á mótinu orðið vel yfir 10 milljónir evra, eða 1,5 milljarðar króna.