Stjórnendur Kviku, bankans sem varð til eftir sameiningu MP banka og Straums fjárfestingabanka, hafa ákveðið að selja hlut félagsins í Íslenskum verðbréfum til breiðs hóps fjárfesta. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu frá bankanum, og greint frá því að á næstu dögum verði formlega tilkynnt um kaupin.
Hlutur bankans í Íslenskum verðbréfum er 66,35% og nýverið barst tilboð í hlutinn sem ákveðið var að taka „eftir mikla yfirlegu“ að því er haft er eftir forstjórarnum Sigurði Atla Jónssyni.
Í frétt hjá Viðskiptablaðinu kemur fram að í þessum hópi fjárfesta séu um 20 kaupendur. Þar á meðal séu lífeyrissjóðurinn Stapi og Kaldbakur, sem er dótturfélag útgerðarfélagsins Samherja. Enginn einstakur fjárfestir er sagður munu eiga meira en tíu prósenta hlut.
Bankinn segir að engin samþætting hafi átt sér stað á milli bankans og Íslenskra verðbréfa þrátt fyrir góð samskipti þar á milli. Því verði engar breytingar á starfsemi bankans við söluna.
Átök um eignarhaldið og sameiningu
Nokkur átök áttu sér stað um eignarhaldið á Íslenskum verðbréfum í lok síðasta árs, sem Kjarninn greindi ítarlega frá. MP banki, Lífeyrissjóður verslunarmanna (LIVE) og félag í eigu Garðars K. Vilhjálmssonar gerðu tilboð í 27,5 prósent hlut Íslandsbanka í Íslenskum verðbréfum í október í fyrra. Föstudaginn 24. október var ákveðið að taka tilboðinu en þann sama dag bárust tilboðsgjöfunum upplýsingar um að Straumur hefði lagt inn tilboð í hlutinn þegar allt stefndi í að kaupin myndu ganga í gegn. Þær upplýsingar, sem voru byggðar á orðrómi á fjármálamarkaðnum, reyndust ekki réttar. Straumur gerði aldrei tilboð í hlutinn.
Hins vegar keypti bankinn 64,3 prósent hlut Sævars Helgasonar og Ásgeirs Ásgeirssonar, í gegnum félagið Gunner ehf., í Íslenskri eignastýringu ehf., sem átti þá 21,83 prósent hlut í Íslenskum verðbréfum. Straumi bauðst síðan að ganga inn í tilboð í aðra hluti í Íslenskum verðbréfum á grundvelli forkaupsréttarákvæðis. Þar á meðal var 27,5 prósent hlutur Íslandsbanka sem MP banki (10 prósent), LIVE (10 prósent) og Garðar Vilhjálmsson (7,5 prósent) tilkynntu um kaup á í október. Í lok desember í fyrra hafði Íslensk eignastýring eignast 58,14% hlut.
Í tengslum við þessar vendingar var vöngum velt yfir sameiningu MP banka, Straums og Íslenskra verðbréfa. Af því varð ekki en í febrúar á þessu ári var svo greint frá því að milli MP banka og Straums hefði náðst samkomulag um samruna bankanna. Þeir sameinuðust svo formlega í júní.