Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir fyrirkomulag veiðiréttar í nýju kvótafrumvarpi Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sé „svolítið sovéskt“. Þetta sagði hann í kvöldfréttum RÚV.
Í fréttum RÚV var sagt frá því að hart hefði verið deilt um kvótafrumvarpið á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun, samkvæmt heimildum fréttastofunnar. Ágreiningurinn snúist einkum um ákvæði um að ríkið eignist þegar í stað aflaheimildir, en í staðinn fái útgerðir nýtingarrétt til fimmtán ára. Eftir fimmtán ár verði réttinum sagt upp með átta ára uppsagnarfresti.
Ásmundur sagði við RÚV að hann fyndi að það væri andstaða við þennan hluta frumvarpsins hjá Sjálfstæðismönnum. „Þetta er eitt af því sem menn hafa staldrað við,“ sagði hann og bætti því við að það myndi hjálpa til að taka ákvæðið út úr frumvarpinu.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra tók ekki undir það í fréttum RÚV að ágreiningur væri um málið í ríkisstjórninni. Hann gæti ekki svarað því hvers vegna frumvarpið hefur ekki komið fram í þinginu, það væri ekki á hans forræði. Frumvarpið hefur verið tilbúið um nokkuð skeið og hagsmunaaðilum hefur verið kynnt um innihald þess, eins og Kjarninn greindi frá síðast í gær.