Þingmenn Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Miðflokksins í utanríkismálanefnd hvetja til þess að utanríkisráðherrar Norðurlanda beiti sér sameiginlega á alþjóðlegum vettvangi í kröfunni um tafarlaust vopnahlé á svæðum Ísraels og Palestínumanna og að ríkisstjórn Íslands beiti sér fyrir að neyðaraðstoð og hjálpargögn komist til nauðstaddra á svæðinu.
Þetta kemur fram í bókun sem lögð var fram á fundi utanríkismálanefndar Alþingis í morgun. Áheyrnarfulltrúi Pírata studdi bókunina en þingmenn VG, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í utanríkismálanefnd gerðu það ekki. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og nefndarmaður í utanríkismálanefnd, segir í samtali við Kjarnann að það læðist að henni sá grunur að þrýstingur Sjálfstæðisflokksins hafi orðið ofan á og orðið þess valdandi að þingmenn þessara flokka hafi ekki verið á bókuninni.
„Þingmenn utanríkismálanefndar fordæma hvers kyns árásir á óbreytta borgara í átökum undanfarna daga á svæðum Ísraels og Palestínumanna. Þingmennirnir leggja áherslu á að alþjóðalög og mannréttindi séu virt í hvívetna og að öryggi almennings verði tryggt. Ólíðandi er að loftárásum sé beitt gegn saklausum borgum þar sem fjöldi barna hefur látið lífið í verstu stríðsátökum á svæðinu síðan 2014,“ segir í bókuninni.
Þá kemur fram að þingmenn nefndarinnar harmi að eldflaugaárásum sé beint gegn óbreyttum borgurum. „Alþjóðasamfélagið verður að gefa skýr skilaboð um að leggja eigi niður vopn strax og að friðsamlegar lausnir í deilunni milli Ísrael og Palestínu sé eina lausnin. Ísland á í sérstöku sambandi við bæði Palestínu og Ísrael. Ísland var fyrsta vestræna ríkið til að viðurkenna sjálfstæði og fullveldi Palestínu með samhljóða samþykkt Alþingis 2011 en Ísland lék einnig sérstakt hlutverk þegar Ísrael varð fullvalda ríki árið 1948. Þingmennirnir hvetja til þess að utanríkisráðherrar Norðurlanda beiti sér sameiginlega á alþjóðlegum vettvangi í kröfunni um tafarlaust vopnahlé og að ríkisstjórn Íslands beiti sér fyrir að neyðaraðstoð og hjálpargögn komist til nauðstaddra á svæðinu.“
Mjög mikilvægt að skýr skilaboð komi frá nefndinni
Rósa Björk segir að það sé merkilegt að sjá að þingmenn VG og Framsóknarflokksins hafi ekki treyst sér til að vera á þessari bókun í ljósi stefnu VG frá stofnun flokksins og sögu Framsóknarflokksins í málum Palestínumanna.
„Það læðist að manni sterkur og rökstuddur grunur að þrýstingur Sjálfstæðisflokksins hafi orðið ofan á og orðið þess valdandi að þingmenn þessara flokka hafi ekki verið á bókuninni. Aftur á móti er fagnaðarefni að þingmenn annarra flokka hafi verið með á henni.“
Hún segir það vera mjög mikilvægt að skýr skilaboð komi frá nefndinni þegar utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands funda hér á landi, sérstaklega í ljósi þess að þingmenn hafa ekki tækifæri til að tala beint við þá.
Athugasemd ritstjórnar: Í fyrri útgáfu fréttarinnar sagði að meirihluti nefndarinnar stæði að bókuninni. Það er ekki rétt, heldur er réttara að tala um þingmenn nefndarinnar.