Lægstu laun hækka upp í 245 þúsund strax og í 300 þúsund krónur á mánuði frá og með maí 2018 samkvæmt drögum að kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins og VR, LÍV, Flóabandalagsins og StéttVest. VR birti í kvöld meginlínur í drögunum að nýju kjarasamningunum. Lægstu taxtar hjá VR munu hækka um 31,3 prósent á samningstímanum.
Samningsdrögin gera ráð fyrir að samið verði út árið 2018. Aðaláhersla er lögð á hækkun lægri launa og að verja millitekjur, að sögn VR. Stuðst verður við taxtahækkanir og launaþróunartryggingu í ár og á næsta ári en taxta- og prósentuhækkanir 2017 og 2018.
Launataxtar hækka um 25 þúsund krónur strax og byrjunarlaun afgreiðslufólks um 3.400 krónuar að auki. Þá eiga laun annarra en þeirra sem fá borgað samkvæmt töxtum að hækka um 7,2 prósent fyrir laun að upphæð 300 þúsund krónum eða lægra, en prósentan fer svo stiglækkandi með hærri tekjum. Þessi launaþróunartrygging verður þó aldrei lægri en þrjú prósent á þessu ári.
Á næsta ári er launaþróunartryggingin 5,5 prósent og fimmtán þúsund krónur að lágmarki. 1. maí 2017 eiga launataxtar svo að hækka um 4,5 prósent og byrjunarlaun afgreiðslufólks að auki um 1.700 krónur. Almenn hækkun þá verður þrjú prósent.
Fyrsta maí 2018 hækka launataxtar svo um þrjú prósent og almenn hækkun verður tvö prósent miðað við átta mánuði, það er það sem eftir lifir ársins 2018.
Nú er unnið að útfærslu ýmissa annarra ákvæða kjarasamninganna, að því er fram kemur í tilkynningu VR. Mikilvægast þessara ákvæða er opnunarákvæði ef forsendur kjarasamningsins standast ekki. Stefnt er að því að ljúka samningum fyrir vikulok.